140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

skilyrði fyrir stuðningi við ríkisstjórn.

[13:50]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mun ekki svara hv. þm. Gunnari Braga til um það, það verður þá gert annars staðar.

(Forseti (ÁRJ): Gunnari Braga Sveinssyni.)

Já, Sveinssyni, það er eins gott að það sé líka á hreinu. [ Hlátur í þingsal. ] Ég endurtek það sem ég hef sagt áður: Af hálfu ríkisstjórnarinnar, af hálfu forustumanna okkar í ríkisstjórn hefur þetta ekki gengið út á það eða verið krafa af okkar hálfu um að þetta snerist um hlutleysi við ríkisstjórn. Það er ekki þannig og ég veit að okkar ágætu félagar í Hreyfingunni geta staðfest það. (Gripið fram í.) Það hefur borið á góma og Hreyfingin hefur útlistað það hvernig hún hefur boðið upp á það en það hefur ekki verið uppi á borðum af okkar hálfu. Þetta hefur snúist um þessi tilteknu málefni og það er ómálefnalegt og ódýrt af hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að tala eins og menn hafi ekki verið að takast á við skuldavanda heimilanna og gert sitt besta í þeirri glímu. Við getum síðan endalaust deilt um hvort þurft hefði eða verið mögulegt að gera meira og þá hvenær og hvernig.

Þessi ríkisstjórn hefur náð miklum árangri eins og við sjáum til dæmis á tölum dagsins, (Forseti hringir.) lægstu atvinnuleysistölu á Íslandi í á fjórða ár. Í aprílmánuði 2012 var atvinnuleysi minna en það var þegar það var minnst (Forseti hringir.) um hásumarið í fyrra. Við sjáum þar verulegan árangur í verki (Forseti hringir.) og batann í hagkerfinu birtast okkur í fjölgun starfa og minna atvinnuleysi.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á ræðutímann og biður hæstv. ráðherra og þingmenn að virða hann.)