140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[23:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nefndi í lok ræðu sinnar að áhugamenn um framgang þessa máls hafi verið víðs fjarri í þessari umræðu og hafi ekki haft fyrir að skýra mál sitt ef undan er skilin stutt framsöguræða formanns nefndarinnar sem skilaði þessu máli til þingsins og eitt andsvar, að ég hygg, frá öðrum þingmanni Samfylkingarinnar. Það sem hann nefnir í þessu sambandi er auðvitað skiljanlegt í ljósi þess að alla vega annar stjórnarflokkurinn er í ægilega mikilli klemmu varðandi þetta mál svo ekki sé meira sagt, eins og hv. þm. Jón Bjarnason hefur bent á. En ég vildi spyrja varðandi hinn stjórnarflokkinn hvort hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyndist ekki vanta dálítið upp á sannfæringarkraftinn hjá þingmönnum þess ágæta flokks sem hafa stært sig af því að vera eini flokkurinn sem stæði óhikað með Evrópusambandsaðild en eru eitthvað feimnir við þá umræðu í umræðunni sem við erum að taka hér, þingmenn stjórnarandstöðunnar einkum, sem bæði beinist að þeim styrkjum sem hér um ræðir, aðferðafræðinni við að koma þeim á og raunar um leið aðildarferlinu eða aðlögunarferlinu sjálfu.

Það undrar mig að hv. þingmenn Samfylkingarinnar sjái ekki ástæðu til að vera við þessa umræðu þegar um er að ræða mál sem tengist stærsta máli þess flokks. Það vekur furðu að þeir taka ekki þátt í henni á nokkurn hátt.