140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 19/2012 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

609. mál
[23:39]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 19/2012 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

Nefndin hefur fjallað um málið, eins og fram kemur í nefndaráliti, og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon og Guðbjörgu Evu H. Baldursdóttur frá utanríkisráðuneyti og Sigurbjörgu Stellu Guðmundsdóttur frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Málið var, eins og venja er orðin í utanríkismálanefnd þegar um meðferð þingsályktunartillagna af þessum toga er að ræða, sent efnahags- og viðskiptanefnd sem viðkomandi þingnefnd og henni gefinn kostur á að gefa álit sitt á tillögunni en ekki bárust athugasemdir við málið.

Markmið greindrar tilskipunar er að auka eftirlit með starfskjarastefnu fjármálafyrirtækja, m.a. í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að starfsmenn séu verðlaunaðir fyrir að taka mikla áhættu í starfi. Þá er gerð krafa um að lánastofnanir setji sér starfskjarastefnu sem þjóni langtímamarkmiðum þeirra. Eftirlitsaðilum eru veittar heimildir til að beita fjármálafyrirtæki sektum fari þau ekki að nýjum reglum varðandi starfskjarastefnu.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun fyrirhugað frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra á 141. löggjafarþingi um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, fjalla um það efni. Efni tilskipunarinnar fellur að áherslum Alþingis og stjórnvalda á undanförnum missirum um að auka stöðugleika og draga úr áhættusækni í fjármálakerfinu. Eftir framlagningu mun frumvarpið að líkindum koma til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd.

Hvorki er gert ráð fyrir að væntanlegar lagabreytingar hafi teljandi kostnað í för með sér né stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir nefndarálitið skrifa auk þess sem hér stendur Árni Þór Sigurðsson, formaður nefndarinnar, Bjarni Benediktsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Helgi Hjörvar, Mörður Árnason, Ragnheiður E. Árnadóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.