140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:11]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil koma inn á eitt atriði í svari við hv. þingmann. Ég tel að við séum nú þegar komin með mikið efni til umfjöllunar og teldi mikið eðlilegra að við tækjum umræðu í þinginu um hvaða breytingar við viljum gera áður en farið verður í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel ekki þörf á henni áður en við förum af stað.

Maður setur auðvitað spurningarmerki við hvernig eigi að túlka tillögurnar og hv. þingmaður bendir réttilega á að við erum með fullt af breytingartillögum, þær streyma inn og eru orðnar ansi margar. Ég geri engar athugasemdir við það í sjálfu sér. Auðvitað tökum við efnislega afstöðu til þeirra og greiðum atkvæði um þær þegar þær koma til afgreiðslu. En að mínu mati er okkur ekkert að vanbúnaði að hefja þessa vinnu og umræðuna í þinginu án þess að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, það er mín skoðun. Við höfum nóg efni til að ræða og setja vinnuna af stað, við þurfum ekki þjóðaratkvæðagreiðslu eða skoðanakönnun til þess.