140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:35]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka það fram að ég er þeirrar skoðunar að leggja eigi sem flest umdeild mál í dóm þjóðarinnar með þjóðaratkvæðagreiðslu. Síðan hef ég áhyggjur af því að ef stjórnarskráin tekur á of mörgum málum og lofar of miklu fengjum við þingmenn stöðugt gagnrýni fyrir að brjóta stjórnarskrána með einhverjum tillögum eða frumvörpum sem við leggjum fram. Það hefur margoft farið í taugarnar á mér eftir hrun hversu erfitt er að ná fram raunverulegum breytingum til hagsbóta fyrir almenning vegna þess að í hvert skipti sem maður leggur eitthvað til, t.d. varðandi skuldamál heimilanna, er maður að brjóta eignarréttarákvæðið í stjórnarskránni. Ég er hlynntari beinu lýðræði en því að setja stjórnarskrá þar sem öllu er lofað og allt er tekið fram. Um þjóðréttarlegar skuldbindingar eða alþjóðasamninga, eins og t.d. ESB-samninginn, það væri náttúrlega mjög æskilegt að hann yrði kláraður áður en við göngum til kosninga þannig að þjóðin geti tekið afstöðu til hans og við þyrftum ekki að hafa alþingiskosningar sem mundu snúast enn og aftur um ESB-aðild eða ekki. Ég er sem sagt á móti því að setja of mikið í stjórnarskrána og vil frekar setja inn í hana ákvæði sem heimilar að sem flest mál sem eru umdeild í samfélaginu fari til þjóðarinnar ef hún krefst þess eða ákveðinn hundraðshluti gerir það. Mér finnst mjög brýnt að til dæmis ESB-samningurinn fari til þjóðarinnar og að við samþykkjum ekki stjórnarskrá sem kemur í veg fyrir það.