140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:52]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég get svarað því strax. Ég tel að það sé full þörf fyrir þessa fjármuni til þarfari verkefna en þessara. Ég held að við sjáum þess víða stað að fjármuni vantar, svo sem í heilbrigðiskerfið, menntakerfið og á öðrum sviðum þjóðlífsins. Ef við erum aflögufær í ríkissjóði, sem ég dreg raunar í efa, er að mínu mati vissulega þarfara að verja þessum fjármunum til annarra verkefna. Það hnikar hins vegar ekki þeirri skoðun minni að úr því sem komið er og vegna þess hvernig boltinn var gefinn upp á árinu 2009, ber þinginu að ljúka umræðunni um stjórnarskrána af ábyrgð og skynsemi og vinna þau verkefni sem Alþingi eru falin en ekki skjóta sér undan þeim eins og mér þykir þessi skoðanakönnun gefa tilefni til. Ég er þeirrar skoðunar að hvort sem mönnum líkar betur eða verr sé það verkefni Alþingis og eigi að vera það, að búa nýjar tillögur að breytingum á stjórnarskrá eða eftir atvikum nýrri stjórnarskrá í hendur almennings í landinu og menn eigi ekki að skorast undan því.

Ég tel mjög mikils um vert að þeirri vinnu sem hafin var verði lokið. Ég tel það innlegg sem hér er á ferðinni frestunarleið og fyrst og fremst, eins og ég nefndi áðan í andsvari, aðferð til að forða því að rjúfa þurfi þing jafnhliða því að kosið hafi verið um nýja stjórnarskrá og boða í framhaldinu til nýrra kosninga. Menn eru bara með tafaleiki til að geta haldið áfram stjórnarsamstarfi út þetta kjörtímabil.