140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að rekja mikið þá sorgarsögu sem hefur fylgt þessu ferli sem stjórnarmeirihlutinn hefur hugmyndir uppi um að klára en í upphafi er ágætt að rifja örstutt upp að þegar farið var í kosningarnar til stjórnlagaþings tók um einn þriðji kosningarbærra manna þátt, tæp 35% ef ég man rétt. Það segir auðvitað sitt um ákallið hjá þjóðinni eftir því að fara í þessa vegferð. Síðan þekkjum við það sem gerðist þegar Hæstiréttur ógilti kosninguna og meiri hluti þingsins tók þá ákvörðun að skipa svokallað stjórnlagaráð.

Síðan fór stjórnlagaráð að vinna og skilaði skýrslu til þingsins. Ég hafði alltaf skilið vinnuferlið þannig að það væri til að endurspegla og koma á framfæri vilja þjóðarinnar sem hafði klárlega kosið þessa fulltrúa til að vinna þessi verk þó að ekki hafi allir tekið sæti sem hlutu kosningu. Ég ætla svo sem ekki að dvelja lengi við það þegar menn skipa síðan stjórnlagaráðið en þá var auðvitað komið það fólk sem þjóðin vildi að færi að undirbúa nýja stjórnarskrá eða væri með leiðbeiningar til þingsins sem auðvitað verður að fjalla um stjórnarskrána, samþykkja hana og leggja hana síðan fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Síðan hefur þetta mál allt verið í einhverju krampakasti eins og svo margt annað hjá hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkunum. Það virðist blandast inn í samningaviðræður stjórnarflokkanna við Hreyfinguna sem byrjaði bersýnilega um áramótin þegar þetta mál komst allt í einu á dagskrá sem eitt af mikilvægustu málunum sem þyrfti að leysa. Ég er töluvert hugsi yfir þessu ferli og ég er líka hugsi yfir því hvað verði með þessar tillögur. Eins og þetta er sett upp og á það bent er ekki æskilegt að fara í þessar spurningar. Ég hefði talið eðlilegri vinnubrögð að ræða tillögur stjórnlagaráðs eftir alla þá miklu vinnu sem stjórnlagaráð lagði í við endurskoðun á stjórnarskránni. Þingið gæti hugsanlega verið sammála um helminginn eða 40% eða 70%, ég veit það ekki fyrir fram, og það væri þá bara klárað og sett í nýja stjórnarskrá og síðan tekin ákvörðun um einhver deiluefni sem stæðu út af í þeirri vinnu, þá á milli pólitískra flokka á þinginu. Þá yrðu spurningarnar miklu afmarkaðri, þ.e. þá stæðu kannski út af fjórar, fimm eða tíu spurningar, hvað sem það væri, og þá væri hægt að spyrja alveg beint þannig að það þyrfti ekki að túlka þær. Menn hefðu getað sloppið við að pexa og rífast um hvernig bæri að skilja það.

Þetta hefði ég talið skynsamlegustu leiðina til að klára þetta mál á vegum þingsins fyrst þessi leið var valin. Nei, það var ekki gert heldur voru þessar spurningar settar fram. Segjum að einhver kjósandi sé sáttur við 60 eða 70% af tillögum stjórnlagaráðs en ekki hinn hlutann, þá hefur hann ekkert val um annað en að hafna öllu eða samþykkja allt. Þó að það séu dregnar fram einhverjar viðbótarspurningar er ekki þar með sagt að það séu þær spurningar sem sá aðili sem vilji hugsanlega samþykkja breytingarnar hjá stjórnlagaráði vilji svara. Mér finnst það lýsa þessum vinnubrögðum og þetta slær mig þannig að þetta sé gert í einhverju krampakasti til að halda lífi í ríkisstjórninni í samningum sem byrjuðu við Hreyfinguna eftir þingfrestun í desember. Önnur rök geta ekki verið fyrir þessum vinnubrögðum að mínu mati.

Bara til að undirstrika þetta vil ég vitna í skrif Skúla Magnússonar, dósents við lagadeild Háskóla Íslands og ritara EFTA-dómstólsins. Með leyfi virðulegs forseta ætla ég að fá að vitna orðrétt í það sem haft er eftir honum:

„… stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs of fjölþætt til að hægt sé að bera það í einu lagi undir þjóðina til samþykkis eða synjunar. Þarna séu einfaldlega of mörg flókin og stefnumótandi atriði tekin saman á einn stað til að hægt sé að ætlast til þess með sanngirni að þeim verði svarað af eða á.“

Síðan heldur viðtalið áfram við þennan ágæta mann:

„Skúli átti sæti í stjórnlaganefnd sem skipuð var 2010 til að undirbúa og standa að þjóðfundi um stjórnarskrármálefni og setja fram hugmyndir um nýja stjórnarskrá, en það var upphafið að því ferli sem skilaði stjórnarskrárdrögunum.“

Það er ekki hægt að segja að þetta séu stjórnarandstæðingar með einhverja takta gagnvart þessum tillögum. Það geta ekki verið annað en eðlileg vinnubrögð að taka umræðuna í þinginu um tillögur stjórnlagaráðs sem eiga auðvitað að endurspegla það. Þeim var falið þetta verkefni þó að það sé hægt að efast stórlega um umboð þessa ágæta fólks. Við skulum ekki staldra við það og ekki gera athugasemdir við það. Þessum einstaklingum var falið þetta verkefni af þinginu og þeir ágætu einstaklingar sem sátu í stjórnlagaráði unnu það og skiluðu skýrslu og síðan hefur Alþingi ekki manndóm til að klára að fara í gegnum hana og taka þá hugsanlega einhver ágreiningsefni út úr þessari vinnu og bera það skjal síðan beint undir þjóðina. Það á að fara í skoðanakönnun hjá þjóðinni, ráðgefandi skoðanakönnun.

Ég hlustaði á forseta lýðveldisins hér 1. október, hvernig hann túlkaði tillögurnar og reifaði sýn sína á kaflann um forsetann. Forseti landsins er mjög reyndur maður og hefur mikla þekkingu á þessum málum og hann túlkaði þessar tillögur stjórnlagaráðs út frá sinni þekkingu. Síðan telur að minnsta kosti einn hv. þingmaður sem á sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að fulltrúar í stjórnlagaráði séu ekki alveg með sama skilning og forsetinn á tillögunum. Þá staldrar maður við og segir: Er þetta nægjanlega skýrt þannig að fólk geri sér grein fyrir því hvað í raun og veru á að fara að kjósa um?

Ég leyfi mér að hafa þá skoðun að væntanlega sé forseti landsins, Ólafur Ragnar Grímsson, sá sem hefur að minnsta kosti mestu yfirsýn yfir þann kafla sem snýr að forsetanum. Við sem hlustuðum á ræðu hans 1. október heyrðum annað viðhorf en hjá öðrum til þessara tillagna stjórnlagaráðs. Þjóðfundurinn lagði grunninn undir vinnuna í stjórnlagaráðinu og síðan sat stjórnarskrárnefndin þar á milli. Mér finnst þetta hér einhver biðleikur til að kaupa þingmenn Hreyfingarinnar til að ríkisstjórnin gæti lafað áfram. Þetta virkar þannig á mig. Svo er búið að telja fullt af fólki trú um það, fólki sem sendir á mann fjölpósta, að það sé verið að taka af því einhvern rétt til að kjósa um stjórnarskrána. Það er ekki þannig.

Hvernig ætlar hver og einn að túlka það þegar menn fara að fjalla um einstakar greinar úr stjórnlagaráðinu ef þær verða allar felldar eða allar samþykktar? Við þurfum að draga fram miklu skýrari og afmarkaðri spurningar og taka þá það út úr þeim tillögum sem stjórnmálaöflin á þinginu eru sammála um og vilja breyta eins og stjórnlagaráðið leggur til. En, nei, það á bara að setja allan pakkann í atkvæðagreiðslu. Auðvitað hefðu verið eðlilegri vinnubrögð ef stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefði unnið þetta mál öðruvísi en í einhverju krampakasti til að halda lífi í ríkisstjórninni en ekki til að ná almennum markmiðum við skýrslu stjórnlagaráðs. Það er að minnsta kosti mín skoðun.