140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi komið mjög skýrt inn á það í ræðu minni áðan að ég átta mig ekki alveg á ferlinu í þessu máli. Ég hefði talið skynsamlegt að sá hluti yrði tekinn út úr tillögum stjórnlagaráðs sem þingið gæti verið sátt við og það yrði tekið til hliðar. Síðan stæðu hugsanlega einhver atriði eftir sem yrðu þá sett afmarkaðri og skýrari í atkvæðagreiðslu hjá þjóðinni ef menn vildu fara slíkan millileik.

Ég átta mig ekki alveg á þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Í fyrsta lagi er hún bara ráðgefandi sem er eðlilegt að því leyti til, en ég átta mig ekki á því hvað meiri hluti þingsins vill fá út úr þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ég fór líka yfir það í ræðu minni og vitnaði í einn ágætan lögfræðing sem vann við undirbúning málsins sem heldur því fram að málið og tillögur stjórnlagaráðs séu allt of viðamiklar þannig að hægt sé að leggja þær fram með sanngjörnum hætti og fengið bara já eða nei. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að auðvitað hefði átt að taka til hliðar það sem menn voru sammála um og láta greiða atkvæði um það, ef þingið mundi vilja gera það, kannski um einhver ágreiningsmál sem væri naumur meiri hluti fyrir eða eitthvað slíkt, þjóðin segði þá sitt álit á því áður en það yrði sett inn í endanlegt frumvarp til kosninga og svo til staðfestingar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á tilganginum með þessu. Ég sagði í ræðu minni að mér fyndist þetta hafa verið unnið í einhverju krampakasti og í raun væri verið að semja við þingmenn Hreyfingarinnar til að ríkisstjórnin gæti lifað eitthvað áfram. Mér finnst vinnubrögðin vera í þá áttina án þess að ég geti fullyrt eitthvað um það.