140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er svo sem gamalt mál sem oft hefur verið rætt í gegnum tíðina sem hv. þingmaður bendir á. Ein af spurningum í tillögunni er:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?“

Ég tek undir þær bollaleggingar sem hv. þingmaður var með hérna, að ef við ætlum að jafna atkvæðisréttinn, gott og vel, þá skulum við jafna öll önnur gæði. Við getum haldið langar og margar ræður um það. Við getum til dæmis staldrað við heilbrigðisþjónustu. Er jafnt aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustunni? Það er það ekki. En við verðum líka að horfa raunhæft á hlutina. Við getum auðvitað ekki haft hátæknisjúkrahús í hverjum einasta landshluta en það hallar mjög mikið á þegnana sem búa á landsbyggðinni.

Eftir að við fórum í niðurskurðinn — hvað þýðir það? Ég hef fengið margar ábendingar um það til að mynda frá fólki sem er farið að eldast, eftir því sem fólk eldist, alveg sama hvar það býr, þarf það því miður að fara oftar til læknis en þegar það er ungt. Þetta hefur þýtt mjög mikil útgjöld hjá mörgum eldri borgurum og auðvitað öllum sem þurfa að leita lækninga eftir að sérfræðilæknar hættu til dæmis að fara út á land á heilbrigðisstofnanirnar. Ég hef fengið margar ábendingar um þetta og við þurfum að taka umræðuna á þeim grunni og tala þá um jöfn búsetuskilyrði, jöfn atkvæðisréttindi og allt sem því fylgir, enda þekkjum við það vestan við hafið að þeir sem búa í höfuðborginni hafa ekki þingmenn vegna þess að stjórnsýslan er þar öll. Auðvitað gefur það augaleið að við eigum að taka umræðuna á breiðari grunni en þessum.