140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Hægt er að fallast á það að skynsamlegra sé að taka þetta í stærri áföngum og einbeita sér að því sem mest sátt getur ríkt um. Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að nýta þann áhuga og þann damp sem er í umræðum um stjórnarskrá á þann veg að verið sé að nýta andrúmsloftið sem er til staðar. Það blása ferskir vindar og margir eru að hugsa um þessa hluti. Við getum hins vegar og eigum að sjálfsögðu að rökræða og vera ósammála um ýmislegt og allt það en ég held að það sé mjög mikilvægt að við, ég orða það bara svo, nýtum meðbyrinn sem er með þessari umræðu og þroska hana um stjórnarskrána. Hún þarf hins vegar vitanlega að vera skynsamleg og menn þurfa að vera tilbúnir að játa að ákveðnir hlutir eiga að vera í stjórnarskrá og aðrir eiga bara alls ekki að vera þar. Af því er kannski meira en minna, að mínu viti.

Ástæðan fyrir því að ég spyr þessarar spurningar eða velti þessu upp með atkvæðaréttinn er vitanlega sú að við þekkjum það báðir, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson og ég, eftir að hafa verið til dæmis í sveitarstjórn og sveitarstjórnarmenn — annar okkar bæjarstjóri — að gæðum er víða misskipt, meðal annars hreinlega milli sveitarfélaga. Það er svo margt sem spilar þar inn í. Landmikil, stór sveitarfélög eru með alls konar aukaútgjöld sem önnur sveitarfélög eru ekki með o.s.frv. Við höfum verið með kerfi til að reyna að jafna það.

Ég tek hins vegar undir það með hv. þingmanni, eða vil lýsa því, að sú reynsla sem við fengum af persónukjöri úr einu kjördæmi hér við stjórnlagaþingskosningarnar var ekki góð. Það mistókst, það var ekki góð tilraun.