140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:59]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðuna. Hún er athyglisverð þessi umræða sem hann var að benda á um ríkisborgararéttinn. Í stækkandi heimi og við útvíkkun Schengen-samningsins er ríkisborgararétturinn okkar að verða eitt það mikilvægasta sem við fáum við fæðingu og það að geta ferðast á milli landa er ekki sjálfsagður réttur eins og þingmaðurinn veit. Það hefði því verið mjög gagnlegt að skoða það að einhverju leyti.

Þingmaðurinn fór yfir frelsi fjölmiðla í tillögum stjórnlagaráðs. Ég tel að í stjórnarskrá eigi ekki að vera ákvæði um fjölmiðla, en búið er að setja margt inn í þessi drög sem ég tel að ekki eigi heima í stjórnarskrá. Ég hef til dæmis farið yfir það í andsvörum og ræðum varðandi dýraverndina, varðandi ákvæðið um að Ríkisendurskoðun skuli vera tryggð staða í stjórnarskrá — það er alveg fáránlegt en það er eitt af því sem kom í gegnum kröfu Evrópusambandsins þarna inn. Krafa var gerð um að ákvæði um Ríkisendurskoðun yrði sett í stjórnarskrána, svona er þetta allt skrýtið.

En við hv. þingmaður deilum áhyggjum varðandi þessi frumvarpsdrög að því leyti að verið er að úthýsa stjórnskipunarvaldinu með tillögum um að ákveðin réttindi skuli vera sett í almenn lög og það eru 86 ákvæði í þá átt í þessum drögum. Ég spyr því þingmanninn: Telur hann ekki að réttarstaða okkar sem borgara sé fyrir borð borin þegar verið er að taka rétt úr stjórnarskránni, æðstu lögum landsins, og setja í almenn lög? Er það ekki hreint og beint valdaframsal og þá minnkandi réttur til að lifa í þessu ríki?