140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:19]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið sem ég skil á þá leið að hún telji afar ólíklegt að ný stjórnarskrá verði komin í gegnum þingið fyrir næstu kosningar. Það verður þá í fyrsta lagi eftir rúmlega fjögur og hálft ár héðan í frá sem ný stjórnarskrá getur tekið gildi nema þing verði rofið í millitíðinni.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Nú erum við búin að fara í gegnum þetta ferli, þjóðfund, stjórnlagaráð, einhverja samræmingu á lögum eða greinum og annað slíkt í þessum drögum að nýrri stjórnarskrá, er þá ekki einfaldlega gott að við fáum fjögur ár til að fara yfir þessi drög eins og þau munu líta út næsta haust og fara nákvæmlega og efnislega í allar greinar frumvarpsins, fella út, bæta við, allt eftir því sem má til að við fáum vönduð grunnlög í staðinn fyrir almenna stefnuyfirlýsingu eins og drög stjórnlagaráðs eru, við fáum lög eða réttara sagt stjórnarskrá sem getur þjónað því hlutverki sem stjórnarskrá á að þjóna fremur en vera með einhverja almenna góðviljaða yfirlýsingu um það hvernig við viljum sjá heiminn?