140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:18]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Breytingartillaga mín kom meðal annars fram vegna þess að sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem nú er búið að fresta til 20. október, átti að fara fram samhliða forsetakosningunum. Ég var frekar hlynnt því að þessar kosningar færu fram samhliða vegna þess að þá fengist alvörukosningaþátttaka. Við sjáum það hvernig forsetakosningabaráttan fer af stað að það verður augljóslega mikil þátttaka í kosningunum. Þetta hefði því verið æskilegast.

Tillaga mín um að þjóðin geti komið að málinu og sagt hug sinn um hvort halda eigi viðræðunum áfram eða ekki hefur verið í utanríkismálanefnd síðan ég settist á þing.

Þingmaðurinn nefndi að sjálfstæðismenn lögðu fram þá tillögu vorið og sumarið 2009 að byrja ætti aðildarferlið á þann hátt að spyrja fyrst: Á að leggja inn umsókn að Evrópusambandinu? Ef svarið væri já, yrði umsóknin lögð inn. En því miður var sú tillaga felld í þinginu með mjög litlum meiri hluta sem stafaði af meðvirkni með því floti sem hér fór af stað um að kíkja þyrfti í pakkann.

Virðulegi forseti. Nú er komið árið 2012 og allt hefur allt breyst til verri vegar í Evrópusambandinu og í Evrópu sjálfri eftir að umsóknin fór inn. Það er alveg orðið tímabært að þjóðin fái að segja álit sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég ætla jafnframt að benda á að breytingartillaga sú sem ég legg fram er ráðgefandi og stjórnvöld eru ekki bundin af henni, ekki frekar en af þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem fer fram um samning við Evrópusambandið ef hann næst. Sú þjóðaratkvæðagreiðsla verður líka ráðgefandi vegna þess að það er ekki fullveldisframsalsákvæði í stjórnarskránni. Það er alveg sama hvort við förum í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir eða eftir að samningur liggur fyrir, báðar eru ráðgefandi. Ég treysti stjórnvöldum einfaldlega ekki (Forseti hringir.) til að fara að úrslitum þeirra því að ekki fóru þau að úrslitum bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samninginn.