140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta hlýtur að vera einsdæmi í lýðræðisríki. Framsóknarflokkurinn er lagstur í málþóf gegn sínum eigin kosningaloforðum. Fyrir kosningar lofaði flokkurinn í sjónvarpi og á heilsíðuauglýsingum í dagblöðum nýrri stjórnarskrá frá sérstöku stjórnlagaþingi, auknum þjóðaratkvæðagreiðslum og jöfnun vægis atkvæða. Nú heldur flokkurinn langlokuræður kvöld eftir kvöld til að koma í veg fyrir að þjóðin fái að segja álit sitt á þeirra eigin kosningaloforði.

Hvað sagði Framsóknarflokkurinn um slíkt málþóf fyrir síðustu kosningar? Hann fór háðulegum orðum um Sjálfstæðisflokkinn. Hann sagði að Sjálfstæðisflokkurinn stæði í málþófi í stjórnarskrármálinu af því að Sjálfstæðisflokkurinn óttaðist það eins og pestina að fólkið fengi valdið. En hver óttast hvað eins og pestina núna? (Gripið fram í: Þú.) Er það Framsóknarflokkurinn sem óttast fólkið og vald þess eins og pestina?

Það er sannarlega óvenjulegt að stjórnarandstöðuflokkur svíki kosningaloforð sín en Framsóknarflokkurinn virðist skipta um kúrs í hverju málinu á fætur öðru. Hann studdi fyrir kosningar aðildarumsókn að Evrópusambandinu en nú virðist hann vera orðinn fráhverfur því. (Gripið fram í.) Hann studdi 20 ára nýtingarsamninga í sjávarútvegi með hóflegu veiðigjaldi en hefur nú ekki bara lagst gegn veiðigjaldsfrumvarpinu heldur báðum sjávarútvegsfrumvörpunum.

Það er kunnugt í lýðræðisríkjum að stjórnarflokkar þurfa að slá af kosningaloforðum sínum til að ná meirihlutasamstarfi. En stjórnarandstöðuflokkur sem hverfur frá hverju kosningaloforði sínu á fætur öðru hlýtur að vera einsdæmi. Við hljótum að spyrja formann Framsóknarflokksins hverju þetta sætir og hvort hann sé bara að sníða öll sérkenni af Framsóknarflokknum svo að hann passi betur í vasa Sjálfstæðisflokksins að loknum næstu kosningum.