140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Þetta eru svolítið margar spurningar, ég veit ekki hvort ég kemst yfir þær. En fyrst að því sem liggur í augum uppi að ég styð ekki þessa ríkisstjórn en ég styð margt sem hún hefur verið að gera. Eitt af því er stjórnarskrármálið. Það var í raun ekki til umræðu núna. Við höfum átt þar samleið í meira en ár og unnið vel að því máli í góðri samvinnu og þannig vona ég að það verði áfram.

Voru væntingar okkar óraunhæfar? Það getur alveg verið en mér finnst alltaf að við eigum að reyna að leysa málin og við öll, öll 63, vorum kosin inn á þetta þing til að reyna að leysa málin. Mér finnst að mér beri sem þingmanni að leita allra leiða til að leysa málin. Skuldavandi heimilanna er það mál sem mér finnst brýnast að við finnum úrlausn á og það var það sem ég var að reyna að gera, ekkert annað. Þó að kannski séu bara 3% líkur á að maður nái einhverju í gegn á maður þá ekki að reyna? Ef einhver greinist með krabbamein og það eru 3% lífslíkur á hann að láta jarða sig strax? Á hann ekki að berjast? Á hann ekki að reyna að ná sínum málum fram? Það er það sem við vorum að gera.

Stjórnarskrármálið er í raun bara í samkomulagi og hefur verið það mjög lengi, eins og menn hafa væntanlega tekið eftir, á milli stjórnarflokkanna og Hreyfingarinnar. Við erum alveg sátt við hvert það mál er að fara. Við ræddum aðallega skuldamálin, fórum örlítið í að ræða fisk. Þar ber svolítið á milli hjá okkur en það strandaði sem sagt á skuldamálunum.