140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum á ný tillögu til þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Mig langar að byrja á því, frú forseti, að benda á það aftur að ég tel að heitið á tillögunni sé rangnefni vegna þess að með þessari tillögu er ekki gert ráð fyrir því að greidd séu atkvæði um þær tillögur sem stjórnlagaráð lagði fram. Hins vegar eru tínd út sex atriði sem meiri hlutinn vill spyrja um en það er hins vegar ekki gert á þann hátt að lagður sé fram texti að hugsanlegu ákvæði stjórnarskrár heldur er eingöngu slegið fram spurningum sem væntanlega á síðan að byggja á til að búa til ákvæði í nýja stjórnarskrá.

Ég hef áður farið yfir, í umræðum um þetta mál, þá aðferðafræði sem fræðimenn og rannsakendur tileinka sér þegar þeir semja spurningar vegna skoðanakannana eða vegna kannana sem ætlunin er að leggja fyrir þá sem prófa á. Það mikilvægasta í þeim fræðum er að spurningar verða að vera nægilega skýrar þannig að sá sem á að svara þeim geti það og þannig að tryggt sé að þeir sem taka þátt í könnuninni eða atkvæðagreiðslunni skilji spurningarnar á sama veg.

Það er ekki svo, frú forseti, að þær spurningar sem lagðar eru fram hér uppfylli þau skilyrði, því miður og þess vegna er óljóst um niðurstöðurnar: Hvað á að gera við niðurstöður sem byggja á spurningum sem eru óljósar og eru þannig úr garði gerðar að þeir sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni svara þeim á ólíkum forsendum? Sem dæmi má nefna að ég efast um að allir þeir sem munu taka þátt í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu skilgreini hugtakið „þjóðareign“ á sama hátt.

Jafnframt hafa margir þingmenn bent á að í fyrstu spurningunni er spurt hvort viðkomandi vilji að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Nú er það svo að þessar tillögur eru fjölmargar og væntanlega eru skiptar skoðanir hjá hverjum og einum um hverjar þeirra eru góðar og hverjar þeirra eru slæmar þannig að ég átta mig ekki á hvernig fólk á að svara þessari spurningu. Ef það eru einhver atriði í tillögu stjórnlagaráðs sem fólk er mjög ósátt við en önnur sem fólk er mjög sátt við, hvernig á þá að svara þessari spurningu? Hvernig á niðurstaðan að vera? Hversu marktæk verða svörin þegar menn hafa ekki möguleika á því að svara eftir eigin vilja þar sem spurningin er orðuð á þennan hátt?

Ég hef jafnframt gagnrýnt það að þegar fræðimenn eru að vinna að spurningalistum, eða spurningavögnum eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur kallað þessar tillögur meiri hlutans, þá er oft gripið til þess ráðs, til að stilla tillögurnar af og reyna að sníða af þeim mestu agnúana, að gerð er svokölluð forprófun á spurningunum. Ég hef ekki fengið nein svör frá meiri hlutanum um það hvort íhugað hafi verið að fara í slíka forprófun eða hvort gerðar hafi verið tilraunir til að gera slíka forprófun. Slík forprófun gæti farið fram á þann hátt að hinn ætlaði spurningalisti er lagður fyrir tiltekinn hóp manna, t.d. einn bekk uppi í háskóla, og þannig eru spurningarnar prófaðar með það fyrir augum að sníða galla af; ef menn skilja ekki spurninguna, ef hún er of óljós eða menn telja ekki hægt að svara, ef sá svarmöguleiki er ekki í boði sem þarf til. Þetta hefði verið einfalt að gera til að laga þetta verklag. Ég hef ekki fengið svör frá meiri hlutanum við þeirri spurningu hvort menn hafi hugleitt að ráðast í þetta.

Frú forseti. Ég hef jafnframt lýst áhyggjum af því hvaða áhrif þessi þjóðaratkvæðagreiðsla muni hafa á þjóðaratkvæðagreiðsluformið hér á landi. Ég er ein af þeim sem finnst spennandi að skoða þá möguleika að þjóðaratkvæðagreiðslur verði algengari en verið hefur hér á landi. Það má því ekki ráðast í þjóðaratkvæðagreiðslur sem eru óskilvirkar og óljósar. Það eyðileggur fyrir framtíðarmöguleikunum á því að nota þetta úrræði.

Ef borgarinn, eða sá sem tekur þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu, mætir til að láta skoðun sína í ljós og fyrir honum liggur spurningalisti sem, af þeim sökum sem ég hef rakið að framan, ekki er hægt að svara verða svörin ekki skýr og niðurstaðan verður skrýtin. Það dregur úr jákvæðu viðhorfi hugarfari fólks gagnvart þjóðaratkvæðagreiðslum ef niðurstöðurnar verða ekki notaðar.