140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:10]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ljóst að við erum að feta nýjar slóðir þegar kemur að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslum. Það er auðvitað munur á þeim og hinum bindandi.

Ég held að við verðum að ganga nokkuð hægt um gleðinnar dyr á meðan við erum að móta ákveðna aðferðafræði og safna í reynslubankann hvaða svörum slíkar atkvæðagreiðslur skila okkur í raun. Ég tek undir að það er mjög mikilvægt og væri best ef hægt væri að koma því þannig fyrir að allar spurningarnar væru mjög einhlítar til að svarið yrði mjög skýrt og menn væru ekki í neinum vafa um hvað það þýddi.

Ég nefndi það í ræðu minni áðan að ég held að þeim spurningum sem meiri hlutinn hefur lagt fram verði á margan hátt svarað matskennt og af tilfinningu og að svörin segi ekki endilega skýrt hvað eigi síðan að gera með niðurstöðuna. Svo kemur auðvitað umræðan um niðurstöðuna. Ekki vitum við hvernig hún verður eða hvernig skiptingin verður þar á milli. Hvað þýðir t.d. ef lítill meiri hluti, 51%, svarar í aðra áttina og 49% í hina? Við vitum heldur ekki hvernig á að meta það ef þátttakan verður mjög lítil og annað í þeim dúr.

Þess vegna held ég að við ættum að feta þessa braut varlegar en við erum að gera. Ég held samt að við eigum að fara þessa braut og skynsamlegt sé að feta leið hins beina lýðræðis. Við eigum að fara varlega með þetta úrræði og læra af reynslunni. Smátt og smátt getum við kannski þróað okkur út í það, ef við viljum og teljum að það sé góð reynsla af því, að fara eins langt og Svisslendingar hafa gert með beint lýðræði. En að hoppa þangað strax á þessum tímapunkti vil ég ekki. Við þurfum kannski að skoða löggjöfina sem við höfum mótað um þetta efni nú (Forseti hringir.) þegar.