140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað út af sama máli. Ég tel fulla ástæðu til að gera hlé á þingfundi meðan stjórnarflokkarnir funda. Í ljósi þess er vitanlega svolítið sérstakt að taka umræðu um einstakar greinar stjórnarskrárinnar, eins og margir þingmenn hafa gert. Ég er búinn að tala tvisvar í dag í þessu máli um tillögu Vigdísar Hauksdóttur. Ég sakna þess að flokkar sem kenna sig við samræðustjórnmál skuli ekki á nokkurn hátt taka þátt í þeirri samræðu sem þarf að vera og á að vera í þinginu um þessa tillögu.

Það er helber dónaskapur, frú forseti, að þessir flokkar skuli halda þingflokksfundi og taka þar af leiðandi allt sitt fólk inn á lokaða fundi í stað þess að fylgjast með þeirri umræðu sem fer fram í þingsal. Þetta er sú virðing sem þessir flokkar kjósa að sýna stjórnarskrárumræðunni, stjórnarskránni og þinginu.

Það er full ástæða til að gera hlé á fundinum þar til fundum þeirra er lokið svo að þetta fólk, þessir ágætu þingmenn, geti fylgst með umræðunni sem þeim veitir svo sannarlega ekki af.