140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:41]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átti einmitt við að uppnámið væri tengt aðildarviðræðunum og að allt væri komið í rembihnút og við værum undir verulegu nálaraugaeftirliti.

Það kemur fram í nefndaráliti hv. þingmanns að þetta frumvarp hafi valdið nokkurri hneykslun á Evrópuþinginu þar sem menn telja að „óverjandi sé að veita þróunaraðstoð til Íslands með hliðsjón af almennri velmegun hér á landi og framgöngu Íslands í Icesave-málinu. Í fréttum Ríkisútvarpsins um málið kemur fram að stækkunarstjóri sambandsins hafi ekki fallist á að um þróunaraðstoð væri að ræða heldur „fjárhagsaðstoð til að undirbúa aðild að Evrópusambandinu“.“

Þetta hefur verið unnið svolítið sérkennilega eins og mörg önnur mál sem hafa komið hingað inn. Þessar tillögur fóru að því er virtist fyrst í fjárlögin og þar var látið bíða að taka þessa umræðu um IPA, bæði þingsályktunartillöguna og frumvarpið sem hér er. Við þingmenn vorum síðan settir í þá stöðu að standa frammi fyrir orðnum hlut. Það er búið að ákveða að fara í tiltekin verkefni og synji þingheimur ríkisstjórninni fellur kostnaðurinn á skattgreiðendur, eins og hæstv. utanríkisráðherra staðfesti í 1. umr. þessa máls. Þessi vinnubrögð má verulega átelja.

Ég vil spyrja hv. þingmann — því að við höfum talsvert talað um mikilvægi þess að komast út úr ákveðnum vandræðum með gjaldmiðil, verðbólgu og verðtryggingu og til þess þurfi agaða hagstjórn — hvort það sé dæmi um agaða hagstjórn þegar dælt er út peningum í gegnum fjárlögin sem eigi síðan að ná inn með tekjum eins og þessum og síðan stöndum við frammi fyrir orðnum hlut. Er þetta ekki dæmi um að sú óagaða hagstjórn sem hefur meðal annars valdið vandræðagangi okkar til þessa haldi því áfram með þessu áframhaldi?