140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér verðum við vitni að blekkingum, lýðskrumi og hálfsannleika þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr og vildi ekki fá bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave.

Nú hefur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra tjáð sig með þeim hætti, sem og hv. þm. Þór Saari, að ekki sé hægt að fara með tvö mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessu hefur landskjörstjórn hafnað og jafnframt úrskurðað að ekkert sé því til fyrirstöðu að kjósa um tvennt í einu enda átti þetta mál að fara fram samhliða forsetakosningum.

Við verðum vitni að því að hér situr ríkisstjórn sem vill ekki fá mesta þjóðþrifamálið í þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. hvort halda eigi áfram umsókninni að brennandi Evrópusambandi. (Gripið fram í.) Vonandi átta landsmenn sig á því hversu mikið lýðskrum er hér á ferðinni hjá stjórnvöldum.