140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Evrópusambandsumsóknin felur það meðal annars í sér að skapa valkosti fyrir okkur Íslendinga en ekki taka þá af okkur. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að þetta mál eigi að klára. Hinu er ekki að leyna að ríkisstjórnin hefur klúðrað málinu með óeiningu og rangri aðferðafræði sem meðal annars fólst í því að tillögu okkar hv. þm. Bjarna Benediktssonar um þjóðaratkvæðagreiðslu í byrjun ferils var hafnað. Það er heldur ekkert óeðlilegt að hatrammir andstæðingar ESB nýti sér hvert tækifæri til að stöðva umsóknina.

Í mínum huga snýst þetta fyrst og fremst um að ná skynsamlegri niðurstöðu. Í ljósi aðstæðna, m.a. að ferlið er núna í hægagangi og verður það væntanlega út kjörtímabilið, er skynsamlegast að kjósa um framhald viðræðna samhliða næstu þingkosningum. Af hverju? Þannig tryggjum við mikla þátttöku og þar með skýran vilja þjóðarinnar um framhaldið sem verður síðan erfitt fyrir stjórnmálaflokkana að líta fram hjá við næstu ríkisstjórnarmyndun.

Ég segi því nei við þessari tillögu.