140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

,ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:05]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þar sem forseti sá ekki áðan beiðni mína um að fá að taka til máls ætla ég að fjalla um liðinn sem var áðan til umræðu. Ef ákvæði um atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vega jafnt gefur það kjördæmum höfuðborgarsvæðisins 40 þingmenn og þingmenn landsbyggðarinnar verða 23. Við skulum spyrja okkur: Af hverju er þetta þannig í dag? Jú, vegna þess að Alþingi Íslendinga er í Reykjavík. Ráðuneytin eins og þau leggja sig eru í Reykjavík. Flestar, ef ekki allar, ríkisstofnanir eru í Reykjavík. Það er ástæðan fyrir því að landsbyggðin fær aukið vægi atkvæða. Og af hverju er það? Jú, vegna þess að það telst lýðræði. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Það er þannig í öðrum löndum. Ég er þeirrar skoðunar (Forseti hringir.) að þetta eina atkvæði sem er í nýrri tillögu stjórnlagaráðs geti leitt til þess (Forseti hringir.) að þjóðin hafni því að hún verði lögð til grundvallar sem ný stjórnarskrá fyrir Ísland.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður þingmenn um að virða tímamörk.)