140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

fundarstjórn.

[17:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast að það kom nokkuð á óvart þegar við áttuðum okkur á þessari uppröðun á dagskránni því að það var ekki í samráði við þingflokksformenn að dagskráin yrði svona. Það er hefð fyrir slíku samráði.

Það er líka að mínu viti óeðlilegt að fresta umræðunni um frumvarpið þegar við vorum komin af stað með hana og byrja á nýrri umræðu um svipað mál eða mál tengt þannig að ég óska þess að forseti skýri í það minnsta hvers vegna þetta er svona, þ.e. ef þetta eru ekki mistök. Ég reikna allt eins með því að þetta séu mistök sem er þá hægt að leiðrétta og byrja á 8. málinu sem ég held að væri hið eina rétta, þ.e. að halda því áfram. Ef ekki, þá væri ágætt að heyra skýringar virðulegs forseta á því hvers vegna þessi háttur er hafður á og hvers vegna ekki var haft samráð við þingflokksformenn um dagskrána.