140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hér er verið að auka skuldbindinguna frá því sem áður var samþykkt, úr 2 milljörðum í 8,7 milljarða, þannig að þetta er gífurleg aukning á fjárlögum ríkisins. Ég vil spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi hvort ekki sé eðlilegt að þessi fjárhæð sé sett í fjárlög eða fjáraukalög, svo að við séum ekki að fela þessa lánveitingu.

Síðan er spurning mín til hv. þingmanns: Við erum með samgönguáætlun þar sem verkefnum er raðað og Norðfjarðargöng standa nokkuð nærri. Síðan er þessum göngum smyglað fram fyrir af ýmsum þingmönnum kjördæmisins. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þetta lykti ekki af spillingu.