140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

633. mál
[14:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar við frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á álagningu fasteignaskatts á hesthús. Breytingin miðar að því að tryggja að jafnræðis sé gætt, innan sama sveitarfélags, við álagningu fasteignaskatts á hesthús þar sem nokkurt misræmi hefur verið við álagningu og hún ýmist verið gerð á grundvelli a- eða c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að heimilt verði að lækka fasteignaskatt á hesthús á yfirstandandi ári þannig að álagningarhlutfall verði samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna.

Skattálögur á einstakling eða hóp manna, sem ekki ná til annarra sem eins stendur á um, fara í bága við eignarréttarákvæði 72. gr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar sem mælir fyrir um að allir séu jafnir fyrir lögum. Óheimilt er að mismuna skattaðilum og skal skattur því vera almenns eðlis, byggjast á almennum efnislegum mælikvarða og jafnræðisreglu. Hæstiréttur hefur staðfest þá meginreglu að óheimilt er að mismuna eftir búsetu við álagningu skatts. Í málum nr. 133/1984 og nr. 134/1984 var fyrir Hæstarétti deilt um hvort tveimur sveitarfélögum væri heimilt að leggja skatt á hlunnindi vegna Haffjarðarár sem væri í eigu utansveitarmanna þegar eigendum árinnar sem voru heimamenn var ekki gert að greiða sama skatt. Í dómi Hæstaréttar segir, með leyfi forseta:

„Í máli þessu veltur gjaldskylda áfrýjenda á búsetu þeirra eins og fyrr greinir. Þegar til þess er litið hversu mjög jafnræði þeirra er raskað með þessum skattháttum þykir með tilvísun til grunnreglu 67. gr. stjórnarskrárinnar, samhliða fyrri venju í löggjöf um hliðstæð efni, eigi vera gild lagaheimild fyrir álagningu gjaldsins.“

Í dómum Hæstaréttar í málum nr. 450/1998 og nr. 451/1998 var deilt um álagningarhlutfall fasteignaskatts og segir þar meðal annars, með leyfi forseta:

„Við gjaldtöku samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga ber stjórnvöldum að gæta almennra stjórnsýslureglna og skýra lagaheimildir svo best fái samrýmst grundvallarreglum laga, svo sem þær koma fram af stjórnarskrá. Þar á meðal verða þau að gæta þess að aðilum innan sveitarfélagsins sé ekki mismunað.“

Meiri hlutinn áréttar að sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu er í samræmi við dóma Hæstaréttar og ætlað að tryggja jafnræði. Álagningarhlutfall fasteignaskatts á ákveðna tegund húsa, hesthúsa, verður þannig hið sama óháð því hvort viðkomandi hús er utan eða innan þéttbýlis. Með frumvarpinu er því verið að tryggja að löggjöfin sé í samræmi við meginreglur stjórnskipunarréttar og skattaréttar. Meiri hlutinn áréttar að mikilvægt er að skattlagningarheimildir séu skýrar og í samræmi við stjórnarskrá.

Fyrir nefndinni var þeim sjónarmiðum hreyft að með því að lækka álagningarhlutfall á hesthús en ekki á önnur hús sem notuð væru undir tómstundastarfsemi væri verið að mismuna skattaðilum á grundvelli þess hvaða tómstundir þeir kysu að stunda. Til að mynda væri þeim sem stunduðu golfíþrótt gert að greiða fasteignaskatt af húsnæði á golfvelli samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laganna sem væri hærri en ef húsnæðið félli undir a-lið. Bent var á að hestamennsku innan þéttbýlis væri eðlilegt að skilgreina sem tómstundastarf eða í öðru falli sem íþrótt en álagningarhlutfall fasteignaskatts á íþróttahús er 1,32% samkvæmt b-lið 3. mgr. 3. gr. eða það sama og kveðið er á um í c-lið.

Meiri hlutinn bendir á að hesthús er gripahús en ekki íþróttahús. Færa má rök fyrir því að reiðhöll sé hús þar sem íþrótt er stunduð en hús þar sem húsdýr eru geymd falla eðli málsins samkvæmt ekki í þann flokk. Mikill eðlis- og kostnaðarmunur getur verið á milli þeirra tómstunda eða íþrótta sem menn velja sér að stunda. Sumar hverjar krefjast þannig sérstaks búnaðar og húsnæðis en aðrar ekki. Sérstaða hestaíþróttar frá öðrum íþróttum er þó nokkur, þar sem hún krefst þess óhjákvæmilega að þeir sem hana stundi eigi eða hafi aðgang að húsnæði undir hesta sína. Hestar eru lifandi dýr sem þurfa aðhlynningu, fæði og vernd gegn veðri og vindum. Þó svo að húsnæði sé nauðsynlegt í öðrum íþróttum og tómstundum, svo sem golfskálar, fasteignir í eigu siglingaklúbba o.s.frv., þá liggja augljóslega önnur sjónarmið þar að baki. Slíkt húsnæði er þar að auki yfirleitt í eigu félagasamtaka en ekki einkaaðila og eru slík samtök oft á tíðum styrkt af viðkomandi sveitarfélagi. Meiri hlutinn bendir í þessu sambandi einnig á að í 2. mgr. 5. gr. laganna er skýrt tekið fram að sveitarstjórn er heimilt að veita styrki til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum þar sem fram fer starfsemi sem ekki er rekin í ágóðaskyni, svo sem menningar-, íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfsemi og mannúðarstörf. En sveitarstjórn er skylt að setja reglur um beitingu þessa ákvæðis. Meiri hlutinn telur því ekkert koma í veg fyrir að sveitarfélög ákveði að koma til móts við þá sem þurfa að greiða fasteignaskatt samkvæmt b- eða c-lið 3. mgr. 3. gr. laganna af slíkum eignum.

Nokkur umræða fór fram um það í nefndinni hvort rétt væri að skilja á milli álagningar á hesthús eftir því hvort í þeim færi fram tómstunda- eða atvinnustarfsemi. Meiri hlutinn telur slíka viðleitni góðra gjalda verða en hún getur hins vegar verið afar flókin í framkvæmd og grafið undan því markmiði um jafnræði sem að baki frumvarpinu býr. Ekki liggur að svo stöddu fyrir hvernig greint yrði á milli þeirra sem hafa atvinnu af hestaíþróttinni og frístundahestamanna, hvort heldur er í þéttbýli eða dreifbýli, en í einu og sama hesthúsinu í þéttbýli getur farið fram hvort tveggja frístundahestamennska og atvinnuhestamennska. Meiri hlutinn telur ljóst að ef vilji er til að aðgreina tómstundir og atvinnurekstur þegar kemur að hesthúsum þá vanti nánari skilgreiningu og vísireglur um hvað teljast hesthús vegna tómstunda og hvað teljast hesthús vegna atvinnustarfsemi þannig að skýr skil séu á milli og ljóst í hvorn flokkinn viðkomandi hesthús falla. Ef engar slíkar reglur liggja fyrir þá er mikið vafamál að ákvæði af þessu tagi teljist nægilega skýr skattlagningarheimild. Augljóst er að hér er um nokkuð flókið mál að ræða sem þarf frekari skoðunar við áður en til lagasetningar kemur. Niðurstaða meiri hlutans er því sú að leggja til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt en hann hvetur innanríkisráðherra til að setja hið fyrsta á fót starfshóp sem fari yfir og meti hugsanlega aðgreiningu hesthúsa í atvinnurekstri annars vegar og frístundahús hins vegar. Starfshópnum mætti fela að meta hvort og þá hvernig raunhæft yrði og eðlilegt að skilja þarna á milli þegar kemur að skattlagningu. Meiri hlutinn beinir því jafnframt til innanríkisráðherra að vert er að endurskoða fasteignamat lögbýla en fram kom í máli gesta að brýn þörf væri á slíku.

Það er augljóst, frú forseti, að einhver sveitarfélög verða af tekjum við þetta og til umræðu kom hvort sveitarfélögum ætti að vera í sjálfsvald sett að ákveða hvort hesthús falla undir a- eða c-lið. Meiri hlutinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að slíkt væri varhugavert með tilliti til skýrleika skattlagningarheimilda og banni stjórnarskrárinnar við framsali á skattlagningarvaldi.

Ég ætla, frú forseti, ekki að hafa frekari orð um þetta mál að svo stöddu en vísa í nokkuð yfirgripsmikið nefndarálit þar sem tekin eru fyrir frekari álitaefni í þessu samhengi.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta álit skrifa auk þeirrar sem hér stendur Ólína Þorvarðardóttir, Birgir Ármannsson, Ásmundur Einar Daðason, Árni Johnsen, Atli Gíslason og Þuríður Backman með fyrirvara, en fyrirvari Þuríðar Backman lýtur að því leggja verði áherslu á að hesthús í tómstundaskyni séu í lægsta álagningarþrepi og starfshópnum verði falið að skilgreina hestamennsku í atvinnuskyni og hvernig hægt sé að aðgreina álagningu á hesthús til ólíkra nota.

Læt ég þá máli mínu lokið að svo stöddu.