140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:11]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um hvað sé hóflegt veiðigjald, er það 10 milljarðar, 15 milljarðar eða hvað? En hv. þingmaður sagði áðan að mörg sjávarútvegsfyrirtæki þurfi alla sína framlegð og það er alveg hárrétt. Það er það sem meðal annars hefur komið fram í skýrslum og við vinnu nefndarinnar, hvað mikill munur er á þeim sirka 1.200 fyrirtækjum sem borga veiðigjald í dag þegar byrjað er. Það er þess vegna, virðulegi forseti, sem ívilnunin eða afslátturinn, sem gæti orðið 1,5 milljarðar kr. vegna vaxtakostnaðarins út af kvótakaupum, kemur þar inn og er ákaflega sanngjarnt.

Þess vegna, virðulegi forseti, andmæli ég því og mótmæli þegar stjórnarandstaðan segir að litlar breytingartillögur séu þar inni. Þetta er veigamikið atriði og kannski eitt mikilvægasta atriðið sem út úr nefndinni kemur núna í breytingartillögunum, og ég á þá von heitasta eftir (Forseti hringir.) þeim upplýsingum sem koma, að þetta fari að magni til til krókaaflamarksbáta og krókaaflamarksbátar muni þá ekki greiða sérstakt veiðigjald á næsta ári vegna skuldsetningar, (Forseti hringir.) að það sé rétt. Og þá fá þeir alla sína framlegð (Forseti hringir.) til að vinna á sínum skuldum.