140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:51]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í umræðu um þau mál sem snúa að breytingum á sjávarútvegsmálunum okkar hefur hv. þingmanni orðið tíðrætt um almannahagsmuni, að þetta sé allt saman lagt til sökum almannahagsmuna. Mig langar að biðja hv. þingmann að útskýra aðeins fyrir okkur hér hvernig hún skilgreinir þetta. Áform ríkisstjórnarflokkanna hafa sett greinina alla í óvissu. Þar erum við að tala um sjómenn, útgerðarmenn, fiskvinnslufólkið og byggðirnar sem treysta á að í samfélaginu séu rekin sterk sjávarútvegsfyrirtæki. Hvernig í ósköpunum fara þessi aðferðafræði og hugmyndir ríkisstjórnarflokkanna saman við það að hér sé verið að leggja þetta allt saman til vegna almannahagsmuna?

Þegar vegið er að möguleikum fyrirtækjanna til hagræðingar og langtímahagkvæmni mun það auðvitað skerða afraksturinn sem hægt er að fá úr þessari grein. Sú gjaldtaka sem hér er um rætt í þessu máli (Forseti hringir.) getur varla að mati nokkurs manns talist hófleg og (Forseti hringir.) er hægt að vísa þar einfaldlega til þess fjölda umsagna sem hingað hefur borist.