140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:52]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þessar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu risti ekki mjög djúpt hjá Vinstri grænum. Ég held að einfaldlega hafi verið hrossakaup á milli Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Ljóst er að þetta hefur verið hjartans mál, við getum bráðum sagt í áratugi, hjá Samfylkingunni að leggja á veiðigjald eða að grafa á einhvern hátt undan útgerðum á Íslandi.

Samfylkingin hefur notað fiskveiðistjórnarkerfið og útgerðina á Íslandi sem einhvers konar grýlu til þess að þjappa sér saman. Það á rætur sínar að rekja til hugmyndafræðinnar, þeirrar vinstri sinnuðu hugmyndafræði sem Samfylkingin byggir á. En af einhverjum ástæðum hefur flokkurinn sem er enn lengra til vinstri, þ.e. Vinstri grænir, ekki fest jafndjúpar rætur í þeirri hugmyndafræði að fiskveiðar og annað slíkt eigi að vera á hendi ríkisins. Ég held því að sú skýring að Vinstri grænir hafi skrifað upp á það, raunverulega í mótsögn við stefnu sína, að fara út í þessa gjörbyltingu á fiskveiðistjórnarkerfinu eigi fyrst og fremst rætur í því að þeir hafi verið að reyna að ná saman um ríkisstjórn með (Forseti hringir.) Samfylkingunni.