140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:53]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svörin, þau eru þýðingarmikil inn í þessa umræðu, Ég hef viljað draga fram mikilvægi sjávarútvegsins fyrir allt samfélagið, ekki eingöngu út frá þeim tölum sem við höfum samkvæmt lönduðum afla eða fjölda sjómanna og útgerðarmanna í landinu. Og ekki síður út frá þeim afleiddu störfum sem eru svo brýn og mikilvæg fyrir okkur, ekki síst nú á tímum, sem við höfum séð byggjast upp í tengslum við arðbæran og hagkvæman skapandi sjávarútveg eins og við höfum verið að byggja upp á umliðnum missirum og árum. Það er það sem mér finnst hafa gleymst svolítið í þessari umræðu. Flokkur hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar og fleiri flokkar, t.d. minn flokkur, hafa verið að tala um að það þurfi líka að hlúa sérstaklega að litlu og meðalstóru fyrirtækjunum. Þau eru akkúrat í kringum þann klasa sem tengist sjávarútveginum.

Þess vegna er svo miður að sjá þær vanhugsuðu — ég þarf greinilega að vanda orðbragð mitt — aðgerðir stjórnvalda sem felast meðal annars í þessu veiðigjaldsfrumvarpi sem er tóm della.

Ég vil spyrja hv. þingmann af því að hann hefur bent á áskoranir sveitarstjórnarmanna víðs vegar um landið og hann er þrátt fyrir ungan aldur mjög reynslumikill hér á þingi engu að síður: Hvernig telur hv. þingmaður að hægt sé að vinna málið áfram þannig að sómi sé að, bæði fyrir þingið og til að ná einhverri rökrænni niðurstöðu upp á nútíðina að gera en ekki síður til framtíðar litið, þannig að við sjáum fram á sjávarútveg sem heldur áfram að skapa störf, hagkvæmni, gjaldeyristekjur og fleira til lengri tíma litið?