140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:20]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi tekið eftir aðvörunarorðum sem birtust í Morgunblaðinu í dag frá 131 sveitarstjórnarmanni og bæjarstjóra í landinu sem hljóða á þá leið, með leyfi frú forseta:

„Undirritaðir telja að þessi varnaðarorð sem fylgja frumvörpunum, séu meira en næg ástæða fyrir alþingismenn til að leggja málin til hliðar frekar en að stuðla að því að lögfesta þau og stuðla þannig að umhleypingum með alvarlegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki í sjávarbyggðum landsins, m.a. mögulegri lækkun launa sjómanna og fiskverkafólks, lækkunar útsvarstekna sveitarfélaga, minni fjárfestingargetu sjávarútvegsfyrirtækja á landsbyggðinni og þar með enn minni atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni en nú er. Við slíkt verður ekki unað.“

Hér er um slíkan fjölda lýðræðislegra kjörinna fulltrúa landsmanna um að ræða að ég tel að við þurfum að hlusta til. Þetta er fólk með mikla þekkingu á aðstæðum í sjávarbyggðum vítt og breitt um landið. Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi kynnt sér þessa áskorun frá forustumönnum sveitarfélaga víða um land og hvort hann sé þeim sammála um að rétt sé að leggja þessi mál til hliðar og vanda betur til verka en hér hefur verið gert.

Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það sé efni til þess, í ljósi mikilla áhrifa málsins á íslenskt bankakerfi og íslenskt efnahagslíf, að það fái á milli 2. og 3. umr. ítarlega umfjöllun í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins, sem er nefnd sem á að hafa yfirumsjón með bankakerfinu og íslensku efnahagslífi. Er ekki rétt í ljósi umfangs málsins að slík athugun fari fram í þeirri nefnd?