140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:15]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála því að reglur af þessum toga þurfa að vera mjög skýrar þannig að þeir sem eru í útgerð viti að hverju þeir gangi á hverjum tíma. Þegar síðan er lagt upp með skattlagningu af þessum toga eða rentuinnheimtu eða hvað við köllum það, skapast auðvitað vandamál vegna þess að þá þarf að spyrja á hvað eigi að horfa og hver skattgrunnurinn eigi að vera. Það er viðurkennt og ég held að það sé bara hraustlega viðurkennt í þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað og er að eiga sér stað í húsinu að þarna eru ákveðnir gallar eða hnökrar sem þarf að vinna á.

Veikleikarnir í þessu koma til dæmis mjög skýrt fram í umsögn Alþýðusambands Íslands. Það er okkar hlutverk að finna út úr því hvernig við getum eytt þeim þannig að þetta verði eins skýrt og nokkur kostur er því að það á atvinnulífið í landinu sannarlega skilið. Við verðum öll sem einstaklingar og sem fyrirtæki að hafa það fyrir augunum svona nokkurn veginn hvernig framtíðin verður þannig að við getum hagað aðgerðum okkar eins og skynsamt fólk.