140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skilja hefur mátt á ummælum einstakra hæstv. ráðherra, eins og hv. þingmaður benti á, að það væri mjög æskilegt fyrir íbúa á norðausturhorninu að fara að búa sig undir að taka á móti þessari gríðarlegu atvinnuuppbyggingu. Það hefur jafnvel mátt skilja það sem svo að kannski yrði að fara í mótvægisaðgerðir svo ekki yrðu mikil ruðningsáhrif á því landsvæði.

Hv. þingmaður vitnaði til tveggja umsagna sem fram hafa komið. Mig langar til dæmis að vitna í umsögn frá Langanesbyggð þar sem segir, með leyfi forseta:

„… það er mat sveitarstjórnar Langanesbyggðar að umrætt frumvarp til laga um veiðigjöld muni hafa gríðarlegar og ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir sveitarfélagið.“

Eftirfarandi segir í umsögn frá Grýtubakkahreppi:

„[Þ]að er vísasta og skjótvirkasta leiðin til að leggja fjölmargar sjávarútvegsbyggðir í rúst og er Grenivík engin undantekning. Einnig mun ríkissjóður finna verulega fyrir skaðanum þegar búið verður að knésetja sjávarútveginn.“

Því vil ég spyrja hv. þingmann: Gerir hann sér einhverja hugmynd um hvað knýr hv. þingmenn áfram sem vilja styðja þessi frumvörp?