140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:05]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Ég held að grunnurinn sé fyrst og fremst sá að fólk skilji mikilvægi þess að landsbyggðin blómstri áfram. Það þjónar þjóðhagslegum tilgangi að halda öllu landinu í byggð. Ég held að sá skilningur sé að vaxa. Ég fagna því til að mynda að hv. þingmaður, sem er þingmaður á höfuðborgarsvæðinu, hefur fullan skilning á mikilvægi þess að landsbyggðin lifi og dafni og að það hafi þjóðhagslegan tilgang.

Varðandi hitt atriðið sem hv. þingmaður kom inn á er staðreyndin auðvitað sú að við verðum að skapa umgjörð fyrir einstaklinga og fyrirtæki til að menn vilji starfa og búa úti á landi. Það gerum við með almennum aðgerðum til handa þessum einstaklingum eins og ég benti á að er gert í Noregi. Í Noregi er það til að mynda svo að því lengra sem viðkomandi býr frá Ósló þeim mun lægri tekjuskatt þarf hann að borga og því lengra sem viðkomandi býr frá Ósló borgar hann jafnvel þeim mun lægra niður af námsláninu sínu. (Forseti hringir.) Við þurfum að grípa til svona aðgerða (Forseti hringir.) vegna þess að það er mikilvægt að halda öllu landinu í byggð.