140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að setja þessa umræðu okkar hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í annað samhengi, þetta: Þegar sáttanefndin var að störfum skoðaði hún sérstaklega áhrifin af því ef sú leið yrði farin sem boðuð var í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og að minnsta kosti Samfylkingin hafði á sinni stefnuskrá sem fólst í því að fyrna kvótann á 20 árum. Það þýddi 5% fyrningu á ári í 20 ár og þannig yrði kvótinn innkallaður að öllu leyti.

Við fengum okkar færustu sérfræðinga til að skoða þessi mál. Það gerði Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri sem fór ofan í málin. Niðurstaða þeirra var sú að ef þetta yrði gert færu 48% fyrirtækjanna á hausinn, fyrirtæki sem héldu utan um 48% kvótans. Þetta varð til þess að stjórnarliðar treystu sér ekki til að ganga áfram þá leið sem boðuð hafði verið í stjórnarsáttmálanum og að minnsta kosti í stefnuskrá annars flokksins. Þetta taldi ég raunhæfa og ábyrga afstöðu af fulltrúum stjórnarliðanna í sáttanefndinni.

Nú er hins vegar lagt fram frumvarp sem felur í sér með óyggjandi hætti, eins og ég hef greint frá, að mati Landsbankans, okkar stærsta lánardrottins í sjávarútvegi, að af 124 fyrirtækjum færu 74 á hausinn, með 4 þús. starfsmenn. Þá hefði maður ímyndað sér, ef allt hefði verið eðlilegt, að þessir sömu fulltrúar stjórnarflokkanna hefðu reynt að taka álíka ábyrga afstöðu og þeir gerðu í sáttanefndinni og sagt: Við getum auðvitað ekki samþykkt svona frumvarp sem setur meiri hluta fyrirtækjanna lóðbeint á hausinn. Við hljótum þess vegna að leggja þessi frumvörp til hliðar, vinna málin aðeins betur, reyna að ná meiri sátt, ræða við hagsmunaaðila, fara yfir þetta með fræðimönnum — vonandi með stjórnarandstöðunni líka til að mynda hina breiðu sátt — og að minnsta kosti sýna jafnábyrga afstöðu (Forseti hringir.) og þeir fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna sem sátu í sáttanefndinni og komust að þessari niðurstöðu þá, (Forseti hringir.) í september 2010.