140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það þýði ekkert fyrir okkur að horfa fram hjá því að hlutaskiptakerfinu sem hv. þingmaður þekkir jafn vel og ég var komið á löngu fyrir gjaldtöku svokallaðs veiðigjalds eða auðlindarentu. Við vitum að þegar verið er að skipta upp kökunni eiga sjómenn eftir mismunandi útgerðarflokkum ákveðinn hluta af henni. Ef þetta trappast upp með þeim hætti að menn hækka alltaf auðlindagjaldið, hækka það og hækka, mun það á endanum koma niður á sjómönnum, það gefur augaleið. Ég held að við nálgumst það ekki með þeim hætti.

Síðan á hv. þingmaður auðvitað að þekkja það jafn vel og ég — ég tók það sérstaklega fyrir í ræðu minni — að ef menn ná ekki að fanga þetta auðlindagjald eða hvaða auðlindagjald sem er betur en stefnt er að, þ.e. annars vegar gagnvart uppsjávarveiðum og hins vegar gagnvart bolfiskveiðum, mun gjaldið lenda mjög mismunandi á einstaka útgerðarflokkum. Þá er ekkert óeðlilegt að það smitist út í launakjör sjómanna. Ég skil áhyggjur sjómanna af því (Forseti hringir.) að þetta muni á endanum að einhverju leyti bitna á kjörum þeirra.