140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við sáum um daginn kynnta með pompi og prakt fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem hvarf fljótlega í rykið sem þyrlað var upp því að það var svo sem ekki mikið í henni. Þar kemur hins vegar fram að ein af forsendum þess að hægt sé að fjármagna þá áætlun sé annars vegar innheimta á veiðigjaldi og hins vegar sala á hlutum í fjármálafyrirtækjum. Fyrir utan að þessi áætlun á að taka gildi einhvern tímann eftir kosningar, sem undirstrikar að þetta er víxill sem á að reyna selja fólki, hlýtur sú forsenda að afla tekna með sölu á hlut í fjármálafyrirtækjum að vera mjög hæpin, ekki síst í ljósi þess að í umsögnum Samtaka fjármálafyrirtækja, Arion banka og Landsbanka Íslands má sjá áhyggjur þessara fyrirtækja af því að nái frumvörpin fram að ganga með þeim hætti sem þau eru boðuð munu þau rýra eignasöfnin og þar með verðgildi þeirra fyrirtækja sem um ræðir. Því hlýt ég að spyrja hv. þingmann: Ef þetta verður samþykkt er þá ekki búið að kippa fótunum undan þeirri fjárfestingaráætlun sem hér var kynnt? Erfitt var fyrir að selja fjármálafyrirtæki, og er víðast hvar um heim að ég held, hvað þá þegar búið er að veikja mjög grunn, eignasafn eða rekstrarmöguleika þessara fyrirtækja með beinum hætti eins og hér er gert og fyrirtækin sjálf hafa bent á. Þetta hlýtur að vera eins og að skjóta sig í fótinn eða hvernig sem menn orða það.