140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:31]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Í upphafi máls míns vil ég gera grein fyrir breytingartillögu við frumvarp til laga um veiðigjöld sem ég flyt ásamt hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Á eftir 12. gr. komi ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Ráðstöfun veiðigjalda.

Tekjum af veiðigjöldum skal ráðstafað þannig:

1. 50% tekna af veiðigjöldum hvers fiskveiðiárs skulu renna í ríkissjóð.

2. 40% tekna af veiðigjöldum hvers fiskveiðiárs skulu renna til þess sveitarfélags eða landshlutasamtaka þar sem skip er skráð.

3. 10% tekna af veiðigjöldum skulu renna í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs, AVS-sjóð, með það að markmiði að stuðla að rannsóknum, nýsköpun og þróun ásamt markaðsmálum í íslenskum sjávarútvegi.

2. Fyrirsögn III. kafla verði: Álagning, innheimta og ráðstöfun.“

Það liggur fyrir, frú forseti, að sjávarútvegsfyrirtæki á landsbyggðinni greiða um 80% af innheimtum veiðigjöldum og tilfærsla þessa fjármagns frá þessum byggðum til höfuðborgarsvæðisins er mjög veruleg. Bráðabirgðaúttektir gefa til kynna að annarri hverri skattkrónu almennings af landsbyggðinni sé endanlega ráðstafað á höfuðborgarsvæðinu. Því til stuðnings liggur meðal annars fyrir hagfræðileg úttekt Vífils Karlssonar hagfræðings frá 18. nóvember 2011. Hann segir þar orðrétt, með leyfi forseta:

„Því má segja að standi hugur ráðamanna til að hækka veiðigjald í sjávarútvegi sé mikilvægt að hluti þess renni aftur til baka inn á þessi svæði ef ekki á að koma til frekari áfalla í formi skertrar þjónustu og lakari lífskjara sem leiddi óhjákvæmilega til frekari brottflutninga íbúa. Beinast liggur við að endurgreiðslan renni til viðkomandi sveitarfélaga. Með því er báðum sjónarmiðum mætt, þ.e. í fyrsta lagi að stuðla að því að ekki verði enn frekari samdráttur á landsbyggðinni og í öðru lagi að veiðigjaldið fari frá þeim sem nýta auðlindina og til þjóðarinnar í gegnum rekstur hins opinbera og almannaþjónustu.“

Sjávarbyggðirnar vítt og breitt um landið verða að fá forgang í að njóta afraksturs auðlinda sinna. Frumvinnslugreinarnar hafa undanfarna áratugi farið í gegnum mikla og langvarandi endurskipulagningu í kjölfar gjörbreytts rekstrarumhverfis. Þetta hefur gengið nærri þeim samfélögum sem hafa byggst að miklu leyti upp á grunni þeirra og á þessum tíma urðu greinileg kaflaskil í íbúaþróun þar til hins verra. Mikilvægt er að bæði aflaheimildir og hluti tekinna veiðigjalda renni aftur til baka inn á þessi svæði ef ekki á að koma til frekari áfalla í formi skertrar þjónustu og lakari lífskjara og frekari brottflutnings íbúa.

Ég minni á að á liðnum árum hefur landsbyggðin gengið í gegnum meiri skerðingar hlutfallslega en höfuðborgarsvæðið, vegna efnahagshrunsins, hvað varðar til að mynda heilsugæslu, sjúkrahúsþjónustu, löggæslu og önnur samfélagsleg verkefni. Það sem verra er; sá niðurskurður hefur að langmestu leyti bitnað á konum með uppsögnum kvenna og niðurlagningu kvennastarfa.

Með breytingartillögunni er því lögð til önnur og réttlátari skipting tekna af veiðigjöldum en í frumvarpinu þar sem gert er ráð fyrir að öll gjöldin renni í ríkissjóðs. Umsagnaraðilar hafa einnig bent á að ólíklegt sé að byggðaaðgerðir frumvarpsins næðu þeim markmiðum sem stefnt er að. Því er mikilvægt að grípa til aðgerða til að rétta af stöðu sjávarbyggða með því að tryggja þeim hlutfall tekna af veiðigjöldum. Breytingin er leið til sátta og tekur mið af þörfum sjávarbyggðanna sem mörg hver hafa lýst yfir áhyggjum af áhrifum fyrirliggjandi frumvarps.

Hér vil ég taka fram að því miður hefur ekki farið fram fagleg og fræðileg úttekt á þessum áhrifum eins og staðan er í dag.

Með frumvarpinu er jafnframt komið til móts við athugasemdir og sjónarmið sem bárust um fiskveiðistjórnarfrumvarpið sem lagt var fram á síðasta þingi þar sem bent var á mikilvægi þess að horfa til búsetu og byggðasjónarmiða. Áréttað skal að við töku veiðigjalda verður að hafa hliðsjón af áhrifunum af fiskveiðistjórnarlögunum í heild. Það er ekki minna mikilvægt. Jafnframt þarf að horfa til jafnræðissjónarmiða þegar aðgengi að einni náttúruauðlind er skattlagt sértækt umfram aðrar auðlindir okkar lands.

Ákvæðið sem við hv. þm. Jón Bjarnason leggjum til er í samræmi við 28. gr. fiskveiðistjórnarfrumvarps sem lagt var fram á síðasta þingi og ríkisstjórnin hafði þá samþykkt fyrir sitt leyti og þingflokkar afgreitt til nefndar. Eins og fyrr segir er lagt til að tekjum af veiðigjöldum skuli ráðstafað þannig að 50% renni í ríkissjóð og 40% til þess sveitarfélags eða hugsanlega landshlutasamninga þess fjórðungs þar sem skipið er skráð. Til greina kemur að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga verði milligönguaðili um ráðstöfun fjárins.

Ég beini því til frú forseta að málið gangi til atvinnuveganefndar milli 2. og 3. umr. þar sem þessi breytingartillaga verði skoðuð sem og það hvernig best megi ráðstafa þessum 40% hluta í þágu landsbyggðar, sjávarbyggða og sveitarfélaga.

Við leggjum enn fremur til að 10% veiðigjalda renni í rannsóknasjóð, AVS-sjóð, til að auka verðmæti sjávarfangs með það að markmiði að stuðla að nýsköpun, rannsóknum og þróun ásamt markaðsmálum í íslenskum sjávarútvegi. Drög að frumvarpi um AVS-sjóðinn voru birt á vef sjávarútvegsráðuneytisins í nóvember síðastliðnum og munu flutningsmenn leggja fram frumvarp þessa efnis verði breytingartillagan samþykkt.

Ég vil líka taka fram að það hefur verið gagnrýnt að ekki sé lagaheimild til að ákvarða í frumvarpi um veiðigjald tekjur til sveitarfélaga. Til að mæta þeirri gagnrýni er breytingartillaga í drögum að lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Það er einfalt að leggja slíkt frumvarp fram strax í haust eða jafnvel á þessu þingi.

Ég vil taka fram, frú forseti, að ég er alls ekki andsnúinn hóflegu veiðigjaldi á sjávarauðlindir, því fer fjarri. Grundvallaratriðið er hins vegar það að þegar tekin er ákvörðun um hækkun veiðigjalds verða allar forsendur að liggja fyrir og það verður líka að liggja fyrir hvaða afleiðingar þetta hefur. Þetta er ekki alveg einfalt mál. Hvaða afleiðingar hefur hækkun veiðigjalds á landsbyggðina, á sveitarfélög og ekki síst laun sjómanna og fiskverkafólks? Ég er fyrst og fremst að horfa til hagsmuna sjávarbyggða, sjómanna og landverkafólks í afstöðu minni til málsins.

Ég bendi sérstaklega á að ég hef í höndunum kröfur Landssambands íslenskra útvegsmanna vegna endurnýjunar kjarasamnings við VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna. Þar er fyrsti liðurinn í kröfugerð LÍÚ að ef samið verði um að nýjar og auknar álögur frá stjórnvöldum, svo sem vegna veiðigjalds, tryggingagjalds, raforkugjalds, kolefnisgjalds og olíuskatts, verði þær dregnar frá aflaverðmæti fyrir skipti. Hvað þýðir þetta, og ekki bara fyrir sjómenn? Ef LÍÚ nær fram þessari kröfu eða einhverjum hluta hennar þýðir það verulega tekjuskerðingu. Auðvitað detta þá einnig niður umtalsverðar útsvarstekjur sjávarbyggða.

Mér finnst nóg komið af aðgerðum þessarar meintu norrænu velferðarstjórnar, félagshyggjustjórnar, í aðgerðum gegn sjómönnum. Ég minni á að ríkisstjórnin sem siglir undir þessu flaggi félagshyggju skerti sjómannaafsláttinn um nærri helming nýlega. Sjómenn hafa tekið á sig kjaraskerðingar langt umfram aðra launamenn í landinu. Og sveitarfélögum mun blæða með lækkuðu útsvari. Hefur þetta verið skoðað? Þarf ekki að skoða þessar afleiðingar, þarf ekki að skoða veiðigjaldið heildstætt?

Í framhjáhlaupi minni ég líka á að í fiskveiðistjórnarfrumvarpinu sem liggur fyrir þingi eru gerðar tillögur um lækkun byggðakvóta. Enn er vegið að sjávarbyggðum. Komi slík lækkun til framkvæmda verður hún afar örlagarík fyrir minni sjávarbyggðir og jafnvel banabiti fiskvinnslu í mörgum þeirra.

Ég nefndi áðan jafnræðissjónarmið um auðlindagjaldið sem ég hef áður komið inn á. Fyrir nokkrum árum flutti hæstv. þáverandi sjávarútvegsráðherra Einar K. Guðfinnsson frumvarp um hækkun veiðigjalds. Ég talaði gegn því á sínum tíma vegna þess að ég vildi að auðlindagjaldið væri heildstætt, lagt á allar auðlindir en ekki eingöngu fiskinn í sjónum.

Í vetur störfuðu tvær nefndir um auðlindagjald, önnur um auðlindagjöld almennt og hin um auðlindagjöld í sjávarútvegi. Því miður liggja engar niðurstöður fyrir. Þegar hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason lagði fram drög að frumvarpi í nóvember 2011 var því frestað að taka afstöðu til hækkunar þar sem nefndirnar sem ég gat um voru að fjalla um auðlindagjöld á breiðum grunni og ekki bara af sjávarafla heldur líka af raforku, ósnortnum víðernum, ferðamannastöðum og ýmsu öðru sem menn njóta og eru auðlindir okkar lands, dýrmætar auðlindir.

Frú forseti. Auðvitað á að gera faglega og fræðilega úttekt á forsendum og afleiðingum og þar set ég í fyrsta sæti afleiðingar fyrir sjávarbyggðirnar, sveitarfélögin, sjómenn og fiskvinnslufólk áður en lengra verður haldið.

Ég hygg að möguleiki sé á fullri sátt í þessu máli á þeim grunni að mæla fyrir hóflegri hækkun auðlindagjalds fyrir næsta fiskveiðiár en ekki lengra fram í tímann og láta síðan nefnd skoða forsendur og afleiðingar hækkaðs gjalds og taka endanlega ákvörðun þegar það liggur fyrir. Ég hef meðal annars rætt við útgerðarmenn, sjómenn og fiskverkafólk og ég held að enginn sé andsnúinn því að borga eðlilega rentu af auðlindinni en vilji að allar hliðar verði skoðaðar. Ég hygg að menn geti komist að málamiðlun á þessu þingi um hækkun á næsta fiskveiðiári en fresta svo framhaldinu fram að áramótum og leggja þá fram nýtt frumvarp þegar allar forsendur hafa verið skoðaðar faglega og fræðilega.

Ég vil segja hér, frú forseti, um veiðigjaldið að góð vísa verður ekki of oft kveðin en hef þann fyrirvara að ég er ekki að mæla gegn hækkun eða þessari gjaldtöku af auðlindum okkar. Í fréttabréfi Landssambands íslenskra útvegsmanna, Útvegurinn, í 4. tbl. 6. árg. frá júlí 1997, var eftirfarandi haft eftir hæstv. núverandi landbúnaðarráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, þá alþingismanni, með leyfi forseta:

„Veiðigjald yrði íþyngjandi fyrir sjávarútveginn og það yrði íþyngjandi fyrir byggðarlögin. Fyrir mér er málið ekki flókið og það þarf ekki að eyða miklum tíma í að rífast um það fram og aftur. Þessu má með einföldum orðum lýsa á eftirfarandi hátt: Sá hagnaður, í tapárum það eigið fé, fyrirtækjanna sem færi í að greiða gjaldið, færi út úr fyrirtækjunum og út úr byggðarlögunum. Það verður ekki eftir þar til fjárfestingar og uppbyggingar. Það er morgunljóst.“

Þetta sagði hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Tilvitnunin heldur áfram svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Í hvað hefur hagnaður Síldarvinnslunnar í Neskaupstað farið undanfarin ár? Hann hefur í meginatriðum farið í endurnýjun loðnubræðslunnar, í að kaupa Blæng, fór í að endurbyggja Beiti og fer í að endurbyggja Börk. Ef þessi hagnaður hefði að stórum hluta til verið gerður upptækur hefði hann ekki farið í þetta. Málið er ekkert flóknara. Það hefur alltaf verið þannig að starfsfólk sjávarútvegsfyrirtækjanna, sjómennirnir, fiskvinnslufólkið og íbúar sjávarútvegsbyggðarlaganna hafa deilt og munu deila kjörum með sjávarútveginum á sínum heimaslóðum.“

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra virðist vel að merkja hafa skipt um skoðun í þessu máli. Ég nota þessa tilvitnun ekki til að leggjast gegn auðlindagjaldi en vil hins vegar, eins og ég sagði áðan, sjá úttekt á fræðilegum og faglegum forsendum þess og afleiðingum.

Frú forseti. Ég verð einnig að gera málsmeðferðinni í þessu frumvarpi og í frumvarpi til laga um breytta fiskveiðistjórn nokkur skil. Það hefur verið mín reynsla frá því að ég byrjaði í stjórnmálum, þ.e. á Alþingi, að menn hafa verið í skotgröfum hvað varðar sjávarútvegsmálin, deilt mjög harkalega og varla talast við. Þessar skotgrafir virðast því miður, og það harma ég, vera dýpri en nokkru sinni fyrr. Ég hygg að umræðan hér á þingi um þetta frumvarp sýni það afar glöggt.

En á hvaða nótum var lagt af stað í þessa vegferð, frú forseti? Jú, núverandi ríkisstjórn lagði af stað í vegferð sína í maí 2009, eftir kosningar, með það fyrir augum að endurskoða lög um fiskveiðar. Við þá endurskoðun átti meðal annars að efla byggð í landinu. Skapa átti sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar og leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda. Síðan segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Endurskoðunin mun verða unnin í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og miðað við að áætlun um innköllun og endurráðstöfun taki gildi í upphafi fiskveiðiárs 1. september 2010. Skipaður verði starfshópur er vinni að endurskoðuninni og kalli til samráðs hagsmunaaðila og sérfræðinga.“

Trúlega má fullyrða að upphaf þessarar vegferðar um sátt og umræður hafi snúist upp í andhverfu sína. Sjaldan veldur einn þegar tveir deila, vil ég þó segja í þessu samhengi. En þetta var leiðarljós vegferðarinnar, og hvernig hefur tekist til? Ég hygg að rétt sé að gera þessari sögu skil frá stjórnarmyndun vorið 2009 til dagsins í dag.

Vorið 2009 kynnti ríkisstjórnin samstarfsyfirlýsingu sína og markmið varðandi sjávarútvegsmál og þegar í stað hófst mjög hatrömm umræða. Það var hluti af ríkisstjórnarmynduninni og krafa Samfylkingarinnar að settur yrði sérstakur starfshópur um fiskveiðistjórnarmálin og maður frá henni gerður formaður. Frá upphafi hefur sá maður stýrt þessu máli.

Í júnímánuði, eftir að þetta var fastbundið, endaði það þannig að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar beindu þeim tilmælum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann skipaði vinnuhóp sem fengi það verkefni að endurskoða stjórn fiskveiða. Hann gekkst inn á það í stað þess að vinna sjálfur frumvarp.

Óvenjulegt er að ráðherrar vinni ekki sjálfir frumvörp sín ásamt starfsmönnum viðkomandi ráðuneyta. Nei, málið var tekið úr höndum fagráðherrans í upphafi.

Gert var ráð fyrir að sá hópur sem skipaður var skyldi skila sjávarútvegsráðherra áliti sínu 1. september 2009. Það var framlengt til 1. nóvember 2009. Reyndin varð hins vegar sú að þessi starfshópur skilaði af sér í byrjun september 2010. Það má svo sem áfellast hæstv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, fyrir að hafa ekki leyst hópinn upp því að skil hans drógust svo mjög á langinn. Hópurinn var síðan skipaður á grundvelli stefnuyfirlýsingar núverandi ríkisstjórnar og verkefnið var að skilgreina helstu álitaefni í löggjöfinni og lýsa þeim. Hópurinn átti að vinna nauðsynlegar greiningar og setja að því loknu fram valkosti um leiðir til úrbóta þannig að greininni yrðu sköpuð góð rekstrarskilyrði til langs tíma, fiskveiðar stundaðar með sjálfbærum hætti og — ég hnykki á þessu — að sem víðtækust sátt næðist um fiskveiðistjórnina meðal þjóðarinnar. Starfshópnum var í því skyni gert að hafa víðtækt samráð við aðra aðila með viðtölum, viðtöku álitsgerða og á veraldarvefnum.

Starfshópurinn var fjölmennur og hafði breiða skipan. Í honum áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka og fyrir hópnum fór núverandi hæstv. velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, sem var formaður hópsins. Þar voru einnig fulltrúar Farmanna- og fiskimannasambandsins, Landssambands íslenskra útvegsmanna, Landssambands smábátaeigenda, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka fiskvinnslustöðva, Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, Sjómannasambands Íslands, formaður matvælasviðs Starfsgreinasambands Íslands, formaður VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna og fulltrúi frá Samtökum eigenda sjávarjarða. Ekki verður annað sagt en að hópurinn hafi verið fjölmennur enda mikið talið í húfi. Vilji ráðherra og ríkisstjórnar á þeim tíma stóð til þess að sem flestir kæmu að málum.

Eins og fyrr segir skilaði starfshópurinn af sér skýrslu haustið 2010 og hafði tekið sér meira en ári meira til starfans en upphaflega var ætlast til. Undir álit hans skrifuðu allir fulltrúar í hópnum nema einn en flestir skiluðu hins vegar sérálitum um einstaka þætti. Formaður og varaformaður starfshópsins sendu síðan forsætisráðherra bréf daginn eftir að skýrslan kom fram og lögðu til að skýrslu hópsins yrði komið til nefndar þingmanna til frekari afgreiðslu, væntanlega til að semja frumvarp. Enn var málið tekið úr höndum sjávarútvegsráðherra.

Ég sagði áðan að fyrir hefði legið að flestir þeir sem tóku þátt í störfum vinnuhópsins hefðu talið að farið yrði eftir niðurstöðunni í meginatriðum. Síðar átti því miður, frú forseti, eftir að koma betur í ljós að það var ætlun sumra að gera ekki neitt með þessa skýrslu. Því miður. Í október eða nóvember 2010 voru því þrír þingmenn úr hvorum stjórnarflokknum, sex alls, settir í nefnd til að fylgjast með og vinna að framgangi frumvarps um málið. Sá hópur hélt fjölda funda með og án ráðherra og reynt var að ná samstöðu um meginatriði væntanlegs frumvarps.

Fljótlega kom í ljós í þeirri vinnu, og hana þekki ég býsna vel af því að ég sat í þessum hópi sex þingmanna fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að þessir þingmenn voru hreint ekki sammála um að fara eftir meginniðurstöðum sáttanefndarinnar og var það í reynd stærsta ágreiningsmálið allan tímann. Maður getur auðvitað sagt sér það að innan bæði Samfylkingarinnar og Vinstri grænna eru uppi gagnstæð sjónarmið í þessum málum, bæði um fiskveiðistjórnina og veiðigjaldið. Ég nefni hv. þm. Kristján L. Möller annars vegar og hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur hins vegar. Ég nefni hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði annars vegar og hins vegar hv. þm. Björn Val Gíslason sem lagðist að ýmsu leyti gegn frumvarpinu á þeim tíma, í fyrravor.

Það var svo í nóvember eða desember að ráðherra skipaði fimm starfshópa innan ráðuneytisins og fékk hver þeirra fyrirmæli um að vinna sérgreind verkefni, t.d. um framsal og nýtingarsamninga, og skila skýrslum um þau. Fram fór ráðuneytisvinna en allan tíma fylgdist þessi hópur sex þingmanna með. Þessir hópar skiluðu síðan skýrslum sínum í byrjun febrúar og þá skýrslu átti að leggja til grundvallar væntanlegu frumvarpi.

Í janúar og febrúar var síðan unnið af kappi, í nánu samráði við þingmannahópinn, að gerð frumvarps sem átti að leggja fram á þinginu í fyrravor. Hæstv. þáverandi sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason lagði ríka áherslu á það í þessari vinnu að það yrði náin upplýsingagjöf til almennings og víðtæk sátt um breytingarnar. Það var hans leiðarljós. Eftir að það frumvarp kom fram kom enn fram krafa um að málinu yrði haldið innan þröngs hóps — það voru forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar sem kröfðust þess — og krafðist forsætisráðherra þess að koma beint að málinu til frekari vinnslu ásamt fjármálaráðherra og þeim þingmönnum flokkanna sem höfðu komið að málinu um veturinn.

Eftir að þessi drög lágu fyrir, í febrúar/mars 2011, var málið þarna í raun á forræði hæstv. forsætisráðherra. Í hönd fóru stanslaus fundarhöld í tvo mánuði, allt þar til frumvarpið var lagt fram á síðasta snúningi í maí. Þá hafði það tekið verulegum breytingum og á lokastigum málsins kom einnig hæstv. velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, að því. Frumvarpið var síðan afgreitt úr ríkisstjórn og það lagt fyrir þingflokkana og afgreitt þaðan eftir tvær eða þrjár vikur. Hæstv. þáverandi sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, var þeirrar skoðunar að affarasælast væri að kynna frumvarpið fyrir hagsmunaaðilum eins og það lá fyrir og því dreift til þeirra, og ég deildi þeirri skoðun með honum, í ljósi þess að það hafði ekki verið kynnt almenningi og hagsmunaaðilum eða þeim gefinn kostur á athugasemdum. Síðan vildi hann leggja það fram á síðasta haustþingi. Á það var ekki fallist. Ekki var fallist á að halda því grundvallaratriði samstarfsyfirlýsingarinnar að ná sem breiðastri samstöðu.

Allir þingmenn vita hvernig fór í fyrravor. Það gekk svo langt að hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson kallaði frumvarpið slys eins og menn muna. (GÞÞ: Bílslys.) Bílslys var það, væntanlega fremur alvarlegt. Hæstv. þáverandi sjávarútvegsráðherra vildi leggja fram minna frumvarp samhliða þessu stóra, fresta því stóra þar til hagsmunaaðilar og almenningur gætu tjáð sig um það og gera þær minni breytingar sem til þurfti til bráðabirgða. Hann lét vinna svokallað litla frumvarp með brýnum aðgerðum sem gætu komið til framkvæmda þá um sumarið. Honum var þá löngu ljóst að stóra frumvarpið mundi lenda í miklum ólgusjó í þinginu og úti í þjóðfélaginu og að alls óvíst væri hvernig því mundi reiða af. Það er sorglegt, frú forseti, að nú ári síðar, í júní 2012, skulum við vera í sömu ógöngum og sama samráðsleysinu.

Mér var það ljóst vorið 2011 að ekki var þingmeirihluti fyrir stóra frumvarpinu. Þingmenn sem höfðu stutt það, höfðu jafnvel tekið þátt í undirbúningi þess og haft veruleg áhrif á gerð þess, fóru að tala gegn því og það jafnvel þó að viðkomandi þingflokkar hefðu samþykkt málið út úr sínum þingflokkum, að vísu einhverjir með fyrirvara. Það varð auðvitað úr að þetta frumvarp hlaut ekki afgreiðslu á vorþingi 2011, en litla frumvarpið var samþykkt með nokkrum breytingum, m.a. aukningu í strandveiðum og byggðatengingum. Kom þá litla frumvarpið í góðar þarfir þó að ekki hefði gengið vel að koma því í gegn.

Frá júní til september 2011 hafði sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis forræði yfir málinu. Það var á forræði þingsins. Frumvarpið hafði verið sent til umsagnar og barst á fjórða tug umsagna. Þær voru afhentar hæstv. þáverandi sjávarútvegsráðherra, Jóni Bjarnasyni, í október 2011. Því fylgdi sérstök sameiginleg umsögn þáverandi formanns og varaformanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Í þeirri umsögn var þetta stóra frumvarp talið ónothæft. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, hv. varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, hv. formaður nefndarinnar, töldu frumvarpið ónothæft og lögðu til að þær fengju sjálfar það verkefni að semja nýtt frumvarp. Þær hafa væntanlega talið sig hæfastar til að klára það verkefni. Það gerðist að vísu ekki en taka ber fram að fyrrgreindir hv. þingmenn voru meðal þeirra sex sem höndluðu með frumvarpið allt frá haustinu 2010. Á þessum tíma hafði frumvarpið fyrst verið á forræði stóru nefndarinnar, frá júní/júlí 2009 til hausts 2010, síðan á forræði þingmannanefndarinnar og loks á forræði hæstv. forsætisráðherra. Hæstv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, var ekki ráðandi í því ferli.

Eins og ég sagði áðan, frú forseti, komu þessar umsagnir til ráðuneytisins í október 2011. Langflestar umsagnirnar sem bárust um það voru neikvæðar en út frá mismunandi sjónarmiðum. Farið var yfir þessar athugasemdir og umsagnir í ráðuneytinu í október og nóvember 2011. Fékk ráðherra meðal annars til sín þrjá aðila ásamt starfsmanni ráðuneytisins til að fara í gegnum málið í heild og gera tillögur að frumvarpi til breytinga á núgildandi lögum sem tækju mið af skýrslu vinnuhópsins, frumvarpinu frá vorinu 2011 og þeim umsögnum sem fyrir lágu. Vinnuhópurinn fékk algjörlega frjálsar hendur frá ráðherra og vann að tillögunum í fjórar vikur. Þessi hópur ákvað strax að taka að sér það vanþakkláta hlutverk að feta einstigið milli hinna ólíku sjónarmiða þótt hann vissi að enginn yrði ánægður, frekar en fyrri daginn ef til vill, en hópurinn taldi mögulegt að smíða grunnskjal sem hægt yrði að kynna sem drög og leggja fram á netinu til umsagnar og athugasemda frá hagsmunaaðilum og almenningi.

Eftir sjö vikna vinnu í ráðuneytinu þar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra fór í fyrsta skipti með málið einn, hv. þm. Jón Bjarnason, kynnti hann vinnu hópsins í ríkisstjórn 15. nóvember með þeim orðum að hann mundi kynna vinnuna út á við, í þingflokkunum og meðal hagsmunaaðila og almennings. Hann taldi afar mikilvægt að opna málið með hliðsjón af samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og orðum í samstarfsyfirlýsingunni um gagnsæi og lýðræðisumbætur, fá fram umræðu í þeirri von að unnt yrði að leysa málið án ofbeldis, leysa það með samkomulagi. Vinnuhópurinn mælti eindregið með þessu. Eftir að hæstv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason hafði kynnt málið í ríkisstjórn lagði hann þessi drög til umræðu og athugasemda fyrir hagsmunaaðila og almenning á netinu.

Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar voru ósammála þessari kynningu og satt best að segja vakti það mikla undrun mína á þeim tíma að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir skyldi fullyrða að þessi vinnubrögð hæstv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra væru óboðleg eins og hún orðaði það. Það að fara eftir samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var allt í einu orðið óboðlegt. Málinu var sem sagt vísað í lokaðan hóp ráðherra, fyrst tveggja ráðherra, svokallaðra fagráðherra, til að fara yfir skjöl málsins og þeir voru að því fram undir áramótin, allan desember. Ég hef ekkert séð koma út úr þeirri vinnu. Síðan tók hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, við málinu í janúar. Hann hafði lýst því yfir í október eða nóvember 2011 að það mundi ekki taka hann nema þrjár vikur að afgreiða málið en það tók hann samt þrjá mánuði.

Því var síðan haldið fram að vinnubrögð Jóns Bjarnasonar hefðu verið óboðleg, og ekki bara það heldur var hann jafnframt sakaður um að hafa tafið framgang málsins. Hann var einn með forræði þess í sjö vikur, í október og nóvember 2011, og hann var gagnrýndur harkalega. Það má kannski segja að mér hafi sárnað það mest í pólitíkinni að svo virðist sem ýmsir þingmenn ríkisstjórnarinnar hafi hreinlega haft veiðileyfi á hæstv. fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra með ómálefnalegri gagnrýni á hann. Það urðu mér enn meiri vonbrigði að hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skyldi aldrei taka upp hanskann fyrir hann.

Þetta er saga málsins og eflaust mætti rekja hana lengra og ítarlegar en ræðutími minn gefur ekki tækifæri til þess. Það var vert og þarft og nauðsynlegt að koma þessari sögu á framfæri svo hún birtist í þingtíðindum. Menn ættu svo að spyrja sig hvort frammistaða ríkisstjórnarinnar sé boðleg, í anda leiðarljóss vegferðarinnar í breytingum á sjávarútvegi. Menn lögðu ríka áherslu á sátt, samræður, gagnsæi — en, nei, því miður gekk það ekki eftir. Enn er jafnmikilvægt að vinna sig til sátta í málinu. Ég hef bent á sáttatillögu sem gengur út á það að ná samkomulagi um að afgreiða hækkað veiðigjald fyrir næsta fiskveiðiár og skipa síðan nefnd sem færi í saumana á þessu faglega og fræðilega, mæti forsendur og hugsanlegar afleiðingar. Þetta er ekki bara spurning um að taka 14 eða 15 milljarða tekjur ef þær eru teknar úr vasa sjómanna og landverkafólks eða úr sjóðum sveitarfélaganna. Þá er bara verið að færa úr einum vasa í annan, það skilar ekki því sem við viljum, að fá arð af þessari auðlind og nýta hann í þágu þjóðfélagsins.

Því miður er niðurstaðan sú, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, að gjáin milli aðila hefur ekki verið breiðari og dýpri en nú, og tala ég þá út frá minni reynslu. Allir aðilar sem ég hef átt tal við og allir sem sendu inn umsagnir um frumvarpið kvarta undan því að hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hafi ekki haft samráð, ekki talað við sig við gerð þessa frumvarps frá því í janúar á þessu ári þar til það var lagt fram. Járn í járn, því miður. Sjaldan veldur einn þegar tveir deila, segi ég aftur.

Frú forseti. Ég er þess fullviss að hægt er að ná viðunandi málamiðlun. Þá hef ég til hliðsjónar þá reynslu sem ég hef haft af þessum málaflokki, m.a. sem fulltrúi í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd frá árinu 2007 og formaður hennar frá maí/júní 2009 til miðs marsmánaðar 2011. Það er hægt að ná málamiðlun með því að fara faglega og fræðilega í málið, skoða það frá öllum hliðum og meta afleiðingar þess. Það er hægt að ná málamiðlun sem ég tel viðunandi fyrir sjávarbyggðir, sjómenn og landverkafólk. Það er mjög mikið (Forseti hringir.) í húfi fyrir þessa aðila.