140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:11]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir ræðu hans. Hann byrjaði á því að kynna breytingartillögu við frumvarp til laga um veiðigjöld sem mig langar að spyrja nánar út í. Þar leggur hann til að tekjum af veiðigjöldum hvers fiskveiðiárs verði ekki ráðstafað öllum í ríkissjóð heldur verði þar um þrískiptingu að ræða, þ.e. að 50% renni í ríkissjóð, 30% renni til þess sveitarfélags þar sem skip er skráð og 20% renni í AVS rannsóknarsjóð sem ætlað er að auka verðmæti sjávarfangs.

Það er hliðstætt aðferðafræði sem var í frumvarpi hæstv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jóns Bjarnasonar sem var gagnrýnt mjög af fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins á þeim forsendum að þar væri um að ræða auðlindagjald fyrir nýtingu sameiginlegrar auðlindar allrar þjóðarinnar. Spurning mín er sú hvort ekki sé eðlilegt að þessir fjármunir renni í þann eina sjóð sem þjóðin á sameiginlega og vissulega gætt að því í úthlutun fjármunanna að þar sé fullt og gott jafnræði milli einstakra byggðarlaga, til dæmis milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðarinnar.

Sömuleiðis varðandi AVS rannsóknarsjóð, hann hefur einmitt verið gagnrýndur nokkuð fyrir að þar sé ekki fylgt sömu sjónarmiðum og faglegum kröfum um samkeppni milli bestu rannsóknartillagnanna eins og til dæmis Rannsóknarsjóður og Tækniþróunarsjóður eru reistir á. Það má meðal annars benda á að formaður þess sjóðs til skamms tíma (Forseti hringir.) var jafnframt þingmaður á Alþingi.