140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Já, það er búið að vera mikið átakaferli innan ríkisstjórnarinnar eins og hv. þingmaður rakti. Eins og hv. þingmaður fór yfir birtist þessi hörmung í því frumvarpi sem þáverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason var látinn sitja uppi með. Frumvarpið var lagt fram í nafni ríkisstjórnarinnar en þegar það fékk svo mikla andstöðu sem raun bar vitni og var svona mikið klúður hættu ráðherrarnir einn af öðrum að styðja hv. þm. Jón Bjarnason, núverandi þingmann.

Meira að segja kom fram í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar í dag að honum hefði sárnað það mjög að ekki einu sinni formaður Vinstri grænna, þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, hefði staðið upp og varið félaga sinn. Það var alveg með ólíkindum hvernig farið var með fyrrverandi ráðherra en það sýnir vel átökin innan ríkisstjórnarinnar sem enduðu með því að hæstv. þáverandi ráðherra Jón Bjarnason var látinn fara úr ríkisstjórninni. Þá var byrjað upp á nýtt og þá tók hæstv. núverandi ráðherra Steingrímur J. Sigfússon við málinu og ætlaði bara að ljúka því á tveimur til þremur vikum, en það tók nú marga mánuði og hér sitjum við uppi með þetta mál. Já, þetta er sorgleg atburðarás, herra forseti.

Framsalið á skattlagningarvaldinu, að meiri hlutinn í atvinnuveganefnd skuli auka enn vald veiðigjaldsnefndar þó að lögfræðingar hafi bent á að framsalsvaldið sé of mikið og að það sé óheimilt samkvæmt stjórnarskrá, er mér bara algjörlega óskiljanlegt. Ég skil ekki hvers vegna fólk getur ekki tekið ábendingum frá okkar færustu lögfræðingum. Þessi ríkisstjórn hefur svo sem aldrei hlustað á ráðgjöf frá fólki úti í bæ eða frá sérfræðingum en það er illa komið fyrir henni fyrst hún telur sig ekki (Forseti hringir.) þurfa að fara eftir því.