140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:55]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Þegar bátarnir voru allir bundnir við bryggju í gær fór ég ásamt fleiri þingmönnum í göngutúr niður að höfn. Þar hittum við tvo menn sem selja net og þjónusta meðal annars Granda. Þeir eru á litlum vinnustað, þriggja manna vinnustað, og sagði annar mannanna að Grandi verslaði við fyrirtækið fyrir um 700 milljónir á ári. Það fær mann óneitanlega til að velta því fyrir sér, þegar við leggjum á skatt eins og þennan, hversu mikið skatttekjur muni dragast saman á öðrum sviðum sjávarútvegs, hjá þjónustuaðilum, launaskattur og annað.

Í skýrslu sem unnin var af Daða Má Kristóferssyni og Stefáni B. Gunnlaugssyni, sem fylgir með þessu frumvarpi, er einmitt fjallað um þetta. Þar segir, með leyfi herra forseta:

„Beinu áhrifin verða minni skatttekjur vegna minni arðsemi, samdráttar í framkvæmdum á vegum fyrirtækja, minni kaup á þjónustu og aukin hætta á gjaldþrotum. Til lengri tíma mun rými fyrirtækja til að gera vel við starfsfólk minnka og líklegt er að launaþróun í sjávarútvegi verði neikvæð.“ — Það hefur áhrif á arðsemi og umfang annarrar skyldrar atvinnustarfsemi við sjávarútveg.

Mig langaði að velta því upp við hv. þingmann hvort hann hafi eitthvað skoðað það hversu miklar tekjur eru af þessum afleiddu, óbeinu störfum sem verða til í kringum sjávarútveginn. Nái þetta frumvarp fram að ganga, eins og það er, og til að mynda 17 af 24 útgerðum í Snæfellsbæ færu á hausinn, hvað mundi það draga mikið úr tekjum ríkissjóðs af þessum afleiddu störfum? Það væri fróðlegt ef hv. þingmaður, af því að hann var á þessum nótum í ræðu sinni, gæti aðeins komið inn á þetta í andsvari.