140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að markaðurinn einn og sér geti ekki leyst þetta mál, það þurfi með öðrum orðum ramma sem nýti markaðskraftana, en að í sumum tilvikum þurfi að beina þeim í skynsamlegar áttir. Þetta er leikjafræðilegt vandamál vegna þess að ef við ætluðum að láta menn einfaldlega um að stýra þessu sjálfir, sérstaklega í þessu tilviki þar sem um er að ræða takmarkaða auðlind, er viðbúið að menn færu býsna geyst, sumir hverjir, og að þeir sem það gerðu gætu þá skemmt fyrir hinum. Ég held með öðrum orðum að ef við búum til skynsamlegan ramma sem nýtir krafta markaðarins sem best getum við náð hámarksarðsemi út úr þessari grein fyrir samfélagið.

Ég vil fá að endurorða spurningu mína til hv. þingmanns: Er hv. þingmaður sammála mér um að við, löggjafinn, eigum að búa til það kerfi sem nær sem mestu út úr auðlindinni en líka út úr til dæmis kröftum markaðarins, krafti mannlegrar hugkvæmni, öllum þessum breytum sem taka þátt í því að skapa verðmætin? Ég veit ekki hvort ég hef útskýrt þetta alveg nógu vel en hugsunin er samt fyrst og fremst sú að skapa þann ramma sem nýtir sem best þá krafta sem í þessari grein búa.