140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:13]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við þurfum að velta þessu fyrir okkur í stærra samhengi. Auðvitað getum við fundið að mörgu í núverandi sjávarútvegskerfi. Það er ýmislegt sem við þyrftum að breyta og við höfum reyndar verið að breyta í gegnum tíðina með ýmsum hætti. Engu að síður, þegar við skoðum sjávarútvegskerfi okkar í samanburði við mörg önnur, horfa aðrar þjóðir til okkar fyrirkomulags. Það er ekki þar með sagt að þetta sé besta kerfi í heimi eins og sumir hafa sagt, ég ætla ekki að halda því fram. En þetta er að minnsta kosti kerfi sem menn horfa til og sjá að við höfum svo sannarlega verið að ná árangri. Hálfs prósent aukning á arðsemi í greininni á hverju einasta ári frá árinu 1984 er auðvitað ævintýralega mikill árangur. Síðan þurfum við einfaldlega að velta því fyrir okkur sem ætti að vera stóra vangaveltan og það er þetta: Hvernig getum við nýtt þennan arð sem best þannig að hann komi þjóðinni til góða? Það gerum við með skynsamlegum fjárfestingum, það gerum við ekki síst með því að reyna að bæta kjör fólksins sem starfar í þessari grein. (Forseti hringir.) Og síðan hitt hvernig við borgum með einhverjum hætti beinlínis til ríkisins gjald fyrir afnotin eins og menn komust að (Forseti hringir.) niðurstöðu um árið 2000 að ætti að vera hóflegt.