140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:14]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom með þó nokkrar spurningar. Ég minnist þess ekki að eitthvert sveitarfélag hafi verið hlynnt veiðigjöldunum. Eins og ég sagði áður var Samfylkingarfélagið í Reykjanesbæ hlynnt þeim en ekkert sveitarfélag. Það hefur hins vegar vakið athygli nokkurra að stór sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eins og Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbær hafa ekki haft neinn sérstakan áhuga að tjá sig mikið um þessi mál eða að setja sig inn í þau, sem er auðvitað merkilegt þar sem útgerð er gríðarlega mikilvæg báðum þessum sveitarfélögum.

Varðandi hvernig finna skuli hóflega leið hvað þetta varðar er rétt að benda á að í núgildandi lögum í öðrum greinum hafa menn farið aðrar leiðir til að reyna að finna hóflegt gjald. Menn hafa til að mynda fundið það út varðandi raforkulagnir, þ.e. landsnet og dreifiveiturnar, að rétt sé að setja niður hóp sérfræðinga sem finna út hvað sé eðlilegt verð þar á milli og síðan er tekin ákvörðun um hóflegt gjald. Í sambandi við kolefnisskattinn eða fyrirhugaða skattlagningu á olíu hafa menn líka reiknað út og ákveðið hvað sé hóflegt í þeim efnum. Það er merkilegt í því ljósi að þar hafa menn áætlað út frá útreikningum að það séu 45% af því sem þar kemur upp, af ónumdri auðlind þar sem enginn tilkostnaður hefur verið af því að kaupa aðgang eða annað. Það er ekki tilfellið með sjávarútveginn sem hefur verið innan sama kerfisins í mjög langan tíma og verulegur kostnaður og hluti af auðlindarentunni hefur farið þangað.

Ef verð á mörkuðum hrynur er augljóst að óhóflegt veiðigjald verður enn þá óhóflegra.