140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:40]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er með hreinum ólíkindum að forseti Alþingis skuli ekki hlutast til um það þegar þingmenn fara fram á að hæstv. fjármálaráðherra sé viðstaddur umræðu um veiðigjöld, sem er skattur á útgerðina í landinu og sjávarbyggðirnar. Þetta er málaflokkur sem heyrir beint undir hæstv. ráðherra. Svo koma hv. þingmenn hingað upp og mæla því bót að hæstv. ráðherra skuli ekki vera við umræðuna.

Nú þekki ég það ágætlega að núverandi stjórnarflokkar voru ekkert ýkja áhugasamir um að byggja upp álver Alcoa við Reyðarfjörð. Ég hefði viljað vera þar en um leið og ég fer fram á það að hæstv. ráðherra, sem fer með málefni skatta, sé viðstaddur þessa umræðu er mér meinað að fara í mitt kjördæmi og samfagna með íbúum þar á meðan hæstv. ráðherra sinnir ekki skyldum sínum á Alþingi. (Gripið fram í.) Fyrst og fremst eru skyldur ráðherra gagnvart Alþingi Íslendinga, þangað sækir hann umboð sitt, og þegar þingmenn fara fram á það að ráðherra sé viðstaddur umræðu ber (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra að hlýða því.