140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

staða evrunnar og áhrif evruvandans á þróun Evrópusamstarfsins.

[13:56]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Hvað hefur fjármálakreppan sem geisað hefur í heiminum frá miðju ári 1997 kennt okkur? Hvað hefur hún leitt í ljós? Hún hefur leitt í ljós að það er grundvallarmisskilningur að með því fyrirkomulagi sem ríkir núna í Evrópu sé hægt að reka sameiginlega mynt og þess vegna þarf að verða grundvallarbreyting á sambandinu til að myntin gangi upp. Við erum að sjá núna aukinn vilja til samruna í fjármálum, aukinn vilja til pólitísks samruna sem mun að lokum leiða til sambandsríkisins Evrópu. Þannig að forsendurnar sem við notuðum þegar við sóttum um aðild að Evrópusambandinu eru orðnar allt aðrar en þær voru einungis fyrir þremur árum síðan.

Það berast uggvænlegar fréttir núna frá Evrópu. Spánn sótti um neyðarlán á dögunum og fékk það um helgina til þess að bjarga bankakerfi sínu. En þetta mun ekki leiða til þess að Spánn losni við sín vandamál, þetta er einungis hluti þess sem þarf að gera í því landi.

Við sjáum að sjóðir eins og til dæmis Abu Dhabi Investment Authority, China Investment Corporation og norski olíusjóðurinn eru allir að draga sig út úr fjárfestingum í Evrópu, fjárfestingu í ríkisskuldabréfum og bankabréfum, sem þýðir það að vandinn á fjármögnun mun stöðugt aukast.

Eina lausnin til bjargar evrunni er samruni, pólitískur fjármálalegur samruni, og að ríkin verði sambandsríki. Það er það sem við Íslendingar þurfum að velta kirfilega (Forseti hringir.) fyrir okkur hvort við viljum ganga í sambandsríkið Evrópu.