140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[20:29]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að svara og þakka hv. þingmanni andsvarið að sjálfsögðu og svara síðustu spurningu hv. þingmanns fyrst.

Já, ég sé það fyrir mér. Það eru 400 milljónir ætlaðar í þeirri áætlun sem hv. þingmaður mælir hér fyrir til rannsókna og undirbúnings jarðgangagerð á seinni tveimur tímabilum, ef ég man rétt, 200 milljónir á hvoru ári. Það eru þeir fjármunir sem ég er að ræða um í tillögu minni. Ég er ekki að tala um að fara að setja inn einhverja milljarða til jarðgangagerðar á þetta áætlunartímabil ef hv. þingmaður skoðar tillögu mína eins og hún liggur fyrir. Það er það sem ég hef verið að ræða. Ég hef lagt á það áherslu að ég er ekki að fara að rugla þeirri áherslu sem sett hefur verið varðandi þessi tvenn göng, alls ekki.

Hv. þingmaður spurði um þetta heiðursmannasamkomulag. Þar var ég að vitna til þeirra greina sem fyrrverandi bæjarstjóri á Seyðisfirði, Þorvaldur Jóhannsson, hefur skrifað um þessi efni. Það var virt með þeim hætti að þetta fór inn í samgönguáætlun og langtímaáætlun. Að sjálfsögðu getur það ekki með neinum hætti verið skuldbindandi fyrir þá sem á eftir koma um alla tíð, nema fyrir það eitt að á þeim tíma þegar samið var á milli landshluta um forgangsröðun verkefna og ég er einfaldlega bara þannig gerður að þegar þeir samningar voru gerðir hefði borið að reyna að virða þá sem kostur er. Ég nefndi einar fimm framkvæmdir sem ætlunin er að skjóta inn í það sem þá var um rætt þegar Seyðfirðingar með öðrum Austfirðingum, Vestfirðingum og Norðlendingum komu sér saman um áhersluröðina á þessu gríðarlega fjárfreka sviði samgönguverkefna en bráðnauðsynlega. Það er fyrst og fremst þetta atriði sem ég er að benda á að mönnum beri að reyna að virða sem mest þeir geta án þess að einhverra skuldbindinga sé krafist.

Mér vitanlega gæti verið um eina tvo einstaklinga sem sitja nú (Forseti hringir.) á þingi og eru í forustu fyrir núverandi hæstv. ríkisstjórn sem þekkja þetta samkomulag mjög vel.