140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[22:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið sem mér fannst bæði hreinskiptið og málefnalegt.

Varðandi veiðigjaldið vil ég velta einu fyrir mér. Nú er hugmyndin á bak við hina svokölluðu fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sú að stuðla að aukinni fjárfestingu í landinu eins og nafn áætlunarinnar ber með sér. Nú er gert ráð fyrir því að fjármagna þessar framkvæmdir að hluta til, eins og ég hef þegar rakið, með veiðigjaldi sem nú á að leggja á. Við skulum vera sanngjörn og segja að uppi eru miklar efasemdir um sjávarútvegurinn standi undir þessu og það muni a.m.k. hafa í för með sér minnkandi fjárfestingargetu atvinnugreinarinnar.

Hefur hv. þingmaður velt því fyrir sér hvernig áhrifin verða á fjárfestingarstigið í heild sinni? Erum við með þessu að taka ákvörðun um að fjárfesting eigi að vera aðeins minni í sjávarútvegi og þá meiri í innviðum eins og brúargerð, vegagerð og þess háttar? Áttar hv. þingmaður sig þá á því hvort heildarfjárfestingarstig verður meira eða minna? Nú væri auðvitað freistandi að velta líka fyrir sér langtímaáhrifum á sjávarútveginn. Við skulum ræða það betur þegar við komum að því að ræða um veiðigjalda-/veiðiskattsfrumvarpið sjálft. Það er önnur saga.

Aðeins aftur að vangaveltum okkar um verið sé að eyrnamerkja þessa peninga. Það er dálítið sérkennilegt, a.m.k. í fyrsta kasti, því að þessir peningar fara í einn stóran kassa sem er peningakassi ríkisins og þaðan eru síðan fjármunir veittir út. Þessir peningar hafi verið markaðir eins og lambfé á vorin. Við getum ekki sagt: Krónan af veiðigjaldi bátsins í Bolungarvík mun nú fara í að byggja brú á Austfjörðum. Við getum ekki gert þetta þannig. Þetta er auðvitað blekking og liður í því að fá menn til að fallast á og gera þennan nýja veiðiskatt dálítið vinsælli meðal almennings.