140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í gær sagði Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, á CNN sem er bandarísk sjónvarpsstöð að evrópskir stjórnmálamenn hefðu í hæsta lagi þrjá mánuði til að bjarga evrunni. Ég spurði á mánudaginn hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, hver væri viðbúnaður íslenskra stjórnvalda við þeirri stöðu sem uppi er í Evrópu og ef mál fara á versta veg. Hann svaraði, með leyfi frú forseta:

„Varðandi viðbúnað íslenskra stjórnvalda er svarið já. Við höfum farið yfir það ítarlega á síðasta ári og aftur nú undanfarnar vikur hvaða áhrif þetta gæti haft á Ísland. Að því hafa komið allir þeir sem tengjast samstarfi stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað við efnahagsáföllum.“

Ég reyndi að ná í hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar og hv. varaformann þeirrar sömu nefndar en þau eru hvorugt við. Ég vil því spyrja hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson, formann þingflokks Framsóknarflokksins, hvort hann kannist við viðræður við stjórnvöld um ráðstafanir og viðbúnað til að mæta áföllum sem Ísland kynni að verða fyrir, aðallega vegna þess að kaupmáttur í Evrópusambandinu kann að falla mjög hratt. Ferðalög þaðan til Íslands kunna að falla niður, verð á fiski sem fluttur er þangað út kann að lækka og sömuleiðis á áli.