140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum. Að ósk fulltrúa í velferðarnefnd var málið tekið aftur inn til nefndarinnar milli 2. og 3. umr. þar sem óskað var eftir frekari yfirferð og umræðu um ákveðna þætti í þeim breytingartillögum sem eru hér til umfjöllunar og tengjast þeim athugasemdum sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert varðandi starfsemi Íbúðalánasjóðs. Þau atriði sem menn töldu rétt að ræða og fara nánar yfir lúta í fyrsta lagi að því hvort þær tillögur sem hafa verið til umræðu og yfirferðar með þeim breytingartillögum sem meiri hluti nefndarinnar hefur lagt fyrir til afgreiðslu mæti þeim kröfum sem Eftirlitsstofnun hefur gert.

Það var upplýst á nefndarfundinum þar sem mættu fulltrúar frá velferðarráðuneyti og frá Íbúðalánasjóði að stjórnendur ráðuneytis og sjóðsins höfðu nýlega átt fund með fulltrúum Eftirlitsstofnunarinnar og kynnt ítarlega fyrir þeim í hverju þær breytingar eru fólgnar sem fram eru settar. Viðbrögð voru þannig að ætla mátti að Eftirlitsstofnunin mundi gera sig ánægða, svo langt sem það nær, með breytingarnar enda liggur fyrir að mati hennar að hér sé markaðsbrestur á húsnæðismarkaði eftir hrun bankakerfisins og því eðlilegt að það sé gefið ákveðið svigrúm og tími til að gera þær breytingar sem stofnunin hefur farið fram á, þ.e. þær séu teknar inn í áföngum og á lengri tíma í takt við ástandið á markaði hér. Þær breytingar sem hér eru settar fram uppfylli því þær kröfur og þau markmið sem stofnunin geti sætt sig við.

Í öðru lagi varð umræða um það leigufélag sem lagabreytingin heimilar að Íbúðalánasjóður geti stofnað til að höndla með og halda utan um þær fjölmörgu eigur, á níunda hundrað, sem hafa komist í eigu Íbúðalánasjóðs eftir hrun, íbúðarhúsnæði vítt og breitt um landið. Aðallega hafa verið umræður um það hvort það sé nægilega tryggt í lagarammanum að skýr og alger aðskilnaður verði á milli stjórnar Íbúðalánasjóðs og stjórnar þessa nýja leigufélags sem verði til í takmarkaðan tíma — stofnun þess er tímabundin ráðstöfun — og er ætlað að fara með þessar eigur og koma þeim aftur í sölu. Bæði í greinargerð með frumvarpinu og í nefndaráliti er tekið skýrt fram að þarna skuli verða skýr greinarmunur og það kom jafnframt fram í máli stjórnenda Íbúðalánasjóðs að þeir gerðu sér fulla grein fyrir þessu og mundu útfæra málið þannig.

Í nefndaráliti með breytingartillögu frá minni hluta velferðarnefndar á þskj. 1540 gerir hv. þm. Eygló Harðardóttir tillögu um að gerð verði breyting á efnismálslið c-liðar 4. gr. þar sem meðal annars komi inn ákvæði þar sem kveðið sé á um sjálfstæði stjórnar leigufélagsins gagnvart stjórn Íbúðalánasjóðs og um rekstrarlegan og bókhaldslegan aðskilnað. Við í meiri hluta nefndarinnar erum reiðubúin að styðja þessa tillögu. Við teljum að rétt sé að þetta komi fram með skýrum hætti í lagasetningunni þar sem það er einbeittur og skýr vilji allra aðila að þannig sé að málum staðið. Við gerum því að tillögu okkar að þessi breyting verði samþykkt ásamt öðrum breytingum sem nefndin hefur lagt til við afgreiðslu þessa máls.