140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

Vatnajökulsþjóðgarður.

[14:28]
Horfa

Baldvin Jónsson (Hr):

Virðulegi forseti. Ég vil taka heils hugar undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram um að við megum vera afar stolt af Vatnajökulsþjóðgarði sem og reyndar hálendinu öllu. Ég hef þó verulegar efasemdir um að markmið um bætt aðgengi ferðamanna að Vatnajökulsþjóðgarði nái fram að ganga á sama tíma og lokun stórra svæða horfir við.

Sá er hér talar hefur mikla reynslu af ferðalögum um hálendi Íslands, bæði akandi og gangandi, og ég hef afar lítinn skilning á þeim sjónarmiðum sem fram koma í verndaráætlun þjóðgarðsins um mikil höft við umferð ökutækja og hesta um svæðið. Ég hef til að mynda ekið ítrekað daglangt á löngum leiðum norðan Vatnajökuls þar sem ég hef ekki mætt bíl heilu dagana, í hæsta lagi kannski tveimur, þremur ökutækjum allan daginn. Samt hafa komið fram hugmyndir um að setja jafnvel á einstefnuakstur á svæðinu. (Gripið fram í: Já, já.) Hver er tilgangurinn með þessum bönnum eða verulegu höftum á umferð um slík svæði?

Að sjálfsögðu eigum við að taka mjög hart á öllum utanvegaakstri og harðar refsingar eiga að vera þar við. Ég tek heils hugar undir þau sjónarmið. En að banna nýtingu þeirra vega sem þegar eru til staðar á svæðinu nema sérstökum útvöldum gönguhópum, eins og ég kom inn á áðan — það er aðgerð sem erfitt er að rökstyðja.

Ég vil einnig taka undir þau sjónarmið hv. þm. Róberts Marshalls um að það sé sjálfsögð krafa að ferðamenn sem fara í skipulögðum hópum um svæði séu undir leiðsögn leiðsögumanna. Ég mundi vilja orða það þannig að þeir ættu að vera undir leiðsögn reyndra leiðsögumanna, vegna þess að í greininni er fólk sem hefur áratugareynslu en fór aldrei í sérstakan skóla. Það er fólk sem ég mundi vilja ferðast með hvert sem væri og vera stoltur af.